Jón Rúnar formaður á afmæli í dag |
Steinþór Kristinsson Fös, 23. október 2009 |
|
Jón Rúnar Halldórsson formaður á afmæli í dag og er 52 ára. Við á www.FHingar.net óskum honum innilega til hamingju með daginn. Jón Rúnar skrifar góða grein í Fjarðarpóstinn sem kom út í gær. En greinin ber titilinn Vallarvandræði á Völlum.
Vallarvandræði á Völlum.
Nokkur umræða hefur skapast í bænum er varðar þann “vanda” sem það hefur í för með sér að m.fl. karla í Haukum hafi áunnið sér rétt til þátttöku í efstudeild knattspyrnu á komandi leiktíð.Vandamálið er fólgið í því að ekki er fyrir hendi á Ásvöllum lögleg aðstaða fyrir áhorfendur.
Samkvæmt leyfiskerfi UEFA (samband evrópskra knattspyrnusambanda) þar sem við Íslendingar erum meðlimir og KSÍ sér um að þessum reglum sé framfylgt, verður að vera fyrir hendi lágmarksaðstaða fyrir áhorfendur í efstu deild karla,sem í þessu tilfelli er a.m.k. 500 sæti í “stúku”. Þessar reglur gilda þó ekki fyrir leiki í m.fl. kvenna.
Það hefur einnig komið fram að til þess að mæta þessum lágmarkskröfum þarf að ráðast í framkvæmdir á Ásvöllum sem nema um 30 milljónum króna.
Margir, þar á meðal nokkrir af forráðamönnum Hauka hafa séð það sem sjálfsagðan kost í stöðunni að Haukar leiki sína heimaleiki í efstudeild á heimavelli okkar FH inga Kaplakrika þar sem aðstaða er til fyrirmyndar og sjálfur völlurinn einn sá allra besti hér á landi.
Forráðamenn Hauka óskuðu eftir fundi með forráðamönnum FH vegna þessa máls sem að sjálfsögðu var orðið við. Þar kom fram að Haukar óskuðu eftir því að fá að spila alla efstudeildarleiki m.fl. karla og m.fl. kvenna í Kaplakrika. Við þessum óskum þeirra er ekki hægt að verða, þar sem álag á Kaplakrikavöll er þegar allt, allt of mikið.
Samkvæmt álagsstuðli er Kaplakriki í 40-50% umframnotkun miðað við það sem ráðlegt getur talist. Þetta mikla álag skapast af því að við FH ingar eigum tvö lið sem keppa reglulega á þessum velli auk þess að yngri flokkar félagsins spila þar nokkurn fjölda leikja. Einnig skal það tekið fram að flestar æfingar m.fl. karla fara fram á Kaplakrikavelli. Það er því augljóst að einungis vegna þessa er ekki hægt að leyfa aukið álag á völlinn.
Ágætir forráðamenn Hauka hafa einnig komið því inn í umræðuna að gera Kaplakrika að “Bæjarleikvangi Hafnarfjarðar” þar sem þeir kærðu sig ekki um að vera gestir á sínum heimaleikjum. Þeir hafa einnig komið með hugmyndir um að við FH ingar færum með æfingar m.fl. karla á Ásvelli.
Við þessu er að segja að það hefur tekið okkur FH inga rúm 40 ár að koma Kaplakrika í þá mynd sem nú er og enn eigum við margt eftir ógert. Einnig skal á það minnt að þar til nú í sumar var einungis stúka fyrir tæplega 900 áhorfendur, stúka sem byggð var fyrir 25 árum. Það liggja þúsundir vinnustunda sem unnar hafa verið í sjálfboðavinnu fórnfúsra FH inga, óteljandi krónur sem lagðar hafa verið fram af velunnurum félagsins í þeirri aðstöðu sem nú er fyrir hendi í Kaplakrika.
Eins skal það tekið fram að alltaf hefur verið gott samstarf á milli FH og Hafnarfjarðarbæjar, hvaða flokkur sem farið hefur með stjórn, varðandi uppbyggingu svæðisins þó á stundum hafi okkur FH ingum fundist seint ganga. Það er því ekki neitt sjálfsagt mál að þó svo að okkar ágætu nágrannar í Haukum hafi unnið sig upp í efstudeild í knattspyrnu að það hafi einhverjar breytinger í för með sér hjá okkur FH ingum, svo langt í frá.
Einhverjir tala á þeim nótum að þar sem öll íþróttamannvirki í Hafnarfirði séu í eigu bæjarins sé stjórnvöldum í lófa lagið að koma hlutunum þannig fyrir að t.d. Haukar spili sína heimaleiki í Kaplakrika. Í tilfelli okkar FH inga er þetta fjarri sanni, eignarhlutur Fimleikafélags Hafnarfjarðar í mannvirkjum í Kaplakrika ríflega 60%.
Eins og menn hafa sjálfsagt tekið eftir hefur þessi umræða að mestu farið fram án þátttöku okkar FH inga sem skapast sjálfsagt af því að þetta er ekki okkar vandmál og ekki okkar að leysa. Einhverjir tala um þetta sem deilu á milli FH og Hauka sem að sjálfsögðu er eins fjarri sannleikanum og hægt er, við FH ingar erum einfaldlega ekki aðili að þessu máli og eigum þ.a.l. ekki í deilum við einn eða neinn vegna þessa.
Við getum í þessu sambandi bent á sambærileg tilfelli frá Reykjavík að þegar t.d. Fjölnir vann sér rétt til þátttöku í efstudeild karla í knattspyrnu var það ekki í umræðunni að þeir spiluðu sína heimaleiki annars staðar en í Grafarvogi þrátt fyrir að þeir hefðu ekki aðstöðu sem skyldi. Það var aldrei vandamál annarra knattspyrnufélaga í Reykjavík að leysa þeirra aðstöðuvanda.
FH ingar munu því halda áfram að einbeita sér að uppbyggingu í Kaplakrika með það að leiðarljósi að Kaplakriki sé og verði heimavöllur FH.
|