www.musikogsport.net
Fréttir Leikdagar/skýrslur Leikmenn Viðtöl Pistlar Skóhillan FH-ingurinn Lög og textar Spjallið Tenglar Myndir Sendu póst
Mið 27.júl 2005    Þessi frétt hefur verið skoðuð 298 sinnum.
Sveinn Arnarsson
Svenni klæddur allfornum FH búning
Mynd: Hermann Valgarðsson
Sveinn Arnarsson er FH-ingurinn. Svenni er gallharður FH-ingur enda annað genetískt erfitt ef ekki ómögulegt.

1) Af hverju FH?
Þegar ég var aðeins árs gamall fékk ég FH náttföt í afmælisgjöf. Held að sá búningur hafi komið úr gömlu búðinnni Sport Gallerý sem Leifur Helgason, föðurbróðir minn rak sællar minningar hér í bænum. Ég er alinn upp sem FH ingur, og ekkert annað stóð til en að ég yrði sem slíkur. Fór á fyrstu æfinguna mína í kringum sex ára aldurinn. Fyrsti þjálfarinn minn var Leifur Sigfinnur Garðarsson, núverandi meistaraflokksþjálfari FH-inga. Upp frá því bjó maður næstum í Krikanum, fótbolti og knattspyrnuskólinn á sumrin og handbolti að vetri til. Ég tel það mjög líklegt að mér hefði verið komið í fóstur einhvers staðar í Gnúpverjahreppnum, eða á álíka sorglegum stöðum, ef ég hefði ekki móttekið FH uppeldið  :)


2) Segðu okkur frá fyrstu ferðinni á FH leik sem þú manst eftir?
Þótt ég sé ungur að árum, þá man ég eftir seinustu mínutunum í seinasta leik sumarsins árið 1989. Þá var ég aðeins fimm ára gamall snáði með föður mínum á leiknum. Faðir minn tók mig með á leikinn. Ég man að ég stóð með honum nokkuð vinstra megin í norðurstúkunni, alveg við völlinn. Þetta er eiginlega það eina sem ég man af þeim leik, enda aðeins lítill krakki. Það var svo ekki fyrr en mörgum árum seinna, þegar við vinirnir í Víðistaðaskóla (Tommi, Robbi, Sverrir Garðars.) vorum að fletta í gegnum bækurnar Íslensk knattspyrna á bókasafninu, að ég áttaði mig á þvílíkur leikur þetta hafi verið.


3) Segðu okkur frá eftirminnilegum leik?
Þar sem ekki er beðið um leik með meistaraflokknum, ætla ég aðeins að nota tækifærið og segja ykkur frá ferð 4. flokks karla á Laugarvatn, eitthvað í kringum  ´95 eða ´96. Þar var Íslandsmótið haldið. Þjálfari okkar var Hlynur Eiríksson, fyrrv, framherji FH og síðar Hauka. Mig minnir að hann hafi í millitíðinni flutt á Seyðisfjörð, spilað þar og þjálfað. En nóg um það..... Ég var þá markmaður í B-liði FH-inga. Í því liði voru meðal annars Andri (Þorbjörnsson) Stefan, sem nú er miðjumaður Haukamanna í handboltanum, og fyrirliðinn var Kári Freyr Þórðarson, bæjarfulltrúasonur og fyrrv. gjaldkeri NFF. Í A-liði flokksins voru stór nöfn, Sverrir Garðarsson, sem mig minnir að hafi spilað frammi þá, Davíð Þór Viðarsson, Atli Guðnason, sem sallar nú inn mörkum með Fjölni, og Pétur Óskar Sigurðsson (ÍBV), svo einhverjir séu nefndir. Okkur í B-liðinu gekk mjög vel á  þessu móti og náðum í úrslitaleikinn sem var gegn Fjölni. Þeir sóttu all hart að okkar marki í þeim leik en vörnin hélt vel og markalaust jafntefli staðreynd. Þá þurfti að útkljá sigurinn í vítaspyrnukeppni, fimm spyrnur á hvort lið. Þá tók Sveinn Arnarsson til sinna ráða og varði hvorki fleiri né færri en TVÆR VÍTASPYRNUR og tryggði liðinu sigur á Íslandsmótinu þetta árið.


Þvílíkur léttir að geta sagt frá þessu.


4) Hver er uppáhaldsleikmaður þinn og hvers vegna? (Núna og líka í gegnum tíðina)
Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Þessi spurning er mér mjög erfið. En nokkrir leikmenn koma upp í huga minn. Hörður Magnússon, Jónsi og Jón Erling Ragnarsson eru ofarlega á blaði, en sá sem stendur upp úr er Ólafur Helgi Kristjánsson. Topp knattspyrnumaður og góður fyrirliði, svo ekki sé minnst á þjálfarahæfileika hans. Þjálfaði mig í handboltanum í langan tíma, með MJÖG góðum árangri. En út fyrir landsteinana, þá var Ian Wright jafn geggjaður striker og hann er sorglegur þáttastjórnandi.


5) Hvert er eftirminnilegasta markið sem hefur verið skorað í Krikanum?
Ég verð að nefna mark sem skorað var í leik FH-KR þegar við unnum 7-0. Guðmundur Sævarsson var þá búinn að skora tvö mörk. Jónsi sat þá upp í stúku með gifsið upp í loftið og kallar á Gumma þegar nokkrar mínútur voru eftir. Gummi Sævars. gefur sér tíma í að snúa sér og góna upp í stúku. Jónsi skipar honum að hlaupa inn í teig til að skora þriðja markið. Gummi Sævars tekur þá á rás upp völlinn, fær boltann og fullkomnar þrennuna!! Eitt skringilegasta atvik sem ég hef orðið vitna af á knattspyrnuvellinum. Að Gummi skuli góna á Jónsa upp í stúku í miðjum leik, að hann skuli gera þetta á móti KR, að hann skuli umsvifalaust hlýða, og síðan skora, er auðvitað algjör snilld.


6) Hver hefur verið besta stundin sem FH aðdáandi?
Maður þarf ekki að velkjast í vafa um það að 19. september árið 2004, fari aldrei úr minni manns. Allur dagurinn var hreint út sagt magnaður. Ein ótrúlegasta stund lífs míns. Að vera með öllum þessum FH-ingum á Akureyri fyrir leik, hertaka stúkuna á Akureyrarvelli og fagna titlinum er ólýsanleg tilfinning. Ég held að andrúmsloftið þennan dag sé ekki hægt að gera skil í skrifuðu orði, því mæli ég með að FH-ingar kíki á myndasyrpuna á fotbolti.net og fái fiðringinn aftur. Sú sem kemur næst þessu var 3-2 sigur FH á KR í undanúrslitum bikarsins árið 2003. Frábær skemmtun, sá leikur.


en sú versta?
Tollering Péturs Ormslev er ein af þeim verri sem ég hef orðið vitna af á mínum stuðningsmannaferli, einnig var það skelfileg lífsreynsla að sjá Garðar Gunnlaugsson skora mark Skagamanna í úrslitum bikarsins ´03.


7) Hvaða leikmann viltu sjá í FH treyju? Og hvern viltu alls ekki sjá í FH treyju?
Ég væri virkilega til í að sjá Víði Leifsson, Tómas Leifsson, Atla Guðnason, Birgi Jóhannsson, Heimi Guðmundsson og Pétur Óskar Sigurðsson aftur í FH treyju. Þarna er ég búinn að telja upp sjö mjög frambærilega knattspyrnumenn sem eru á mála hjá öðrum félögum. Nú þurfum við bara að fá þessa menn aftur í Krikann og láta þá spila fyrir okkar hönd.
Ég myndi hins vegar aldrei vilja sjá Bjarnólf Lárusson í FH treyjunni góðu. Á einhvern (ó)skiljanlegan hátt fer maðurinn svakalega í taugarnar á mér þegar hann leikur knattspyrnu.


8) Hverjir eru verstu andstæðingar FH að þínu mati?
Án efa eru það Skagamenn. Það er eins og þeir haldi okkur í einhvers konar spennitreyju. Mjög erfiður leikurinn gegn þeim í bikarnum, svo ekki sé minnst á bikarleiki seinustu ára á móti þeim, sem og leiki í deildinni.


9) Hverju myndir þú breyta hjá FH?
Allt starf í kringum knattspyrnudeildina hefur verið með miklum sóma seinustu ár. Nú eru komnir upp stólar í norðurstúkuna, sem bætir aðstöðu, og útlit vallarins, mjög mikið. Stjórn Knattspyrnudeildar FH hefur unnið gríðargott starf og eflt alla umgjörð í kringum liðið til muna, sem skilar sér auðvitað í ánægðari leikmannahóp o.s.frv. En alltaf má gera betur! Stuðningsmenn liðsins eru tólfti maðurinn, og þarf þá að koma fram við þann hóp sem slíkann. Persónulega finnst mér ekki rétt að stuðningsmannahópurinn þurfi að húka á knæpu í nokkurri fjarlægð frá vellinum ef þeir vilja hittast fyrir leik. Það væri óskandi ef stuðningsmenn fengju inni á einhverjum stað í Kaplakrika, til að stilla saman strengi sína fyrir leik.


10) Hvernig myndir þú stilla upp liði ef þú gætir valið úr öllum leikmönnum FH fyrr og síðar?
Það er mjög vandasamt verk að setja saman ellefu manna lið frá ýmsum tímum.
Mitt lið yrði samt sem áður eftirfarandi


Daði Lárusson
Hilmar Björnsson - Sverrir Garðarsson - Auðun Helgason - Óli Kristjáns (C)
Jón Þ. Stefánsson - Heimir Guðjónsson - Jón Erling Ragnarsson - Emil Hallfreðss.
Allan Borgvardt - Hörður Magnússon


11) Hvaða liði heldur þú með úti í hinum stóra heimi?
Ég er Arsenal maður, fékk 100 ára sögu Arsenal á VHS spólu, sögð af Bjarna Fel, þegar ég var um 5-6 ára gamall. Hún kom einnig úr Sport Gallerý sem Leibbi Helga rak. Síðan þá hef ég haldið tryggð við mitt lið.


12) Hvar sérðu FH fyrir þér eftir tíu ár?
Það er erfitt að segja hvar FH verður eftir tíu ár. Landslagið í íslenskri knattspyrnu er fljótt að breytast, KR vann tvöfalt ´99 en er nú að berjast við fall. Auðvitað vona ég að við verðum ennþá á toppnum á öllum sviðum, knattspyrnu, handknattleik, frjálsum og skylmingum. Með tilkomu Risans vona ég að blómaskeið í hafnfirskri knattspyrnusögu sé hafið. Við FH-ingar vitum vel að ef allir leggja sitt af mörkum og standa saman, þétt við sitt lið, þá eigum við eftir að ná langt. Eins og lagið okkar segir: "með samstilltu átaki allra við erum TOPPNUM Á"


Áfram FH.


<< Eldri frétt     Nýrri frétt >>
Staðan

Sæti Félag Stig
1. FH 36
2. KR 30
3. Valur 29
4. Keflavík 24
5. Breiðablik 23
6. ÍA 22
7. Víkingur 21
8. Fylkir 21
9. Grindavík 19
10. ÍBV 15

Markahæstir

Tryggvi 8
Atli Viðar 4
Allan Dyring 4


Síðustu leikir

5 4 3 2 1
T J J U J

 

 


Síðasti leikur

Grindavík - FH

1:1


Næsti leikur

FH - KF Nörd
4. okt.

?:?

Laugardalsvöllur

Fasteignasalan Ás Hraunhamar Avion Group Dominos Saltkaup
DesignEuropA
 
DesignEuropA Heim