Sun 03.apr 2005
FH-Keflavík
|
Mynd: this.is/fh |
FH sigraði 3:0 Keflavík í mun fjörugri leik en í gær. FH stillti upp sama byrjunarliði og í gær en menn mættu til leiks með allt öðru hugarfari. Fyrsta mark FH skoraði Ólafur Páll en það annað Ásgeir. Þriðja markið kom svo frá Tryggva Guðmundssyni en hann er þá að skora í sínum fyrsta leik fyrir Fimleikafélagið. Hann átti stórleik og er maður leiksins án nokkurs vafa.
Byrjunarlið FH í leiknum var hið sama og hóf leikinn í Garðabæ:
Daði
Gummi - Auðunn - Ásgeir - Freyr
Gamli - Siim
Ólafur Páll
Jónsi - Allan - Tryggvi
Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu beggja liða. Á 10. mínútu fengu Keflvíkingar aukaspyrnu á miðjum vellinum. Boltinn var sendur inn í teig og eftir smá baráttu náðu Keflvíkingar föstu skoti að marki. Daði sló boltann til hliðar og Heimir tók við honum sallarólegur inni í markteig. Hann sendi boltann út á Tryggva sem þrumaði honum fram völlinn á Gumma. Gummi komst einn inn fyrir vörnina með Óla Palla sér við hlið. Óli var rangstæður en tók þá ákvörðun að taka boltann af Gumma og skora í mark Keflavíkur. Ef Gummi hefði skotið hefði markið að öllum líkindum verið löglegt.
Á 28. mínútu voru Keflvíkingar mjög nálægt því að skora. Sending kom utan af hægri kanti, Daði stökk upp í boltann í miðjum teignum. Það var hlaupið harkalega utan í hann í uppstökkinu en hann náði samt að slæma hendinni í boltann. Ingvi náði föstu skoti á markið á meðan Daði lá en þar var Ásgeir mættur á marklínu og skallaði boltann frá.
Gummi lenti í smá vandræðum tveimur mínútum síðar þegar hann ætlaði að hreinsa út úr vörninni. Kjartan Jóhannes leikmaður Keflavíkur fékk boltann í hendina og komst við það einn inn fyrir vörn FH en Daði var snöggur að átta sig og varði vel.
Á 31. mínútu sendi Gummi langan bolta inn fyrir vörn Keflavíkur. Ólafur Páll var fyrstur til að átta sig, vippaði boltanum yfir markvörð Keflavíkur og skallaði boltann svo í netið. 1-0 fyrir FH.
Sex mínútum fyrir hálfleik fengu FH-ingar sannkallað dauðafæri. Allan sendi frábæran bolta inn fyrir vörn Keflavíkur. Jónsi náði honum við endalínu og sendi fyrir á Ólaf Pál sem skaut af stuttu færi í vinstri höndina á Ómari markverði Keflavíkur.
Á 56. mínútu fengu FH-ingar hornspyrnu. Hún var tekin stutt og Dennis Siim sendi fyrir markið þar stökk Ásgeir upp og skallaði boltann í netið. 2-0. Eftir markið kom Atli Viðar inn fyrir Jónsa og sjö mínútum síðar kom Grani inn á fyrir Ólaf Pál.
Á 71. mínútu sendi Gummi glæsilega sendingu úr öftustu vörn inn fyrir vörn Keflvíkur. Gestur Gylfason missti boltann inn fyrir sig og Allan komst upp að endamörkum. Þar sendi hann fyrir á Tryggva sem kom á mikilli ferð og hamraði knöttinn í netið. 3-0
Auðunn skipti svo út fyrir Ármann Smára sem spilaði að þessu sinni í öftustu vörn, Baldur leysti svo Gamla af hólmi þegar 15. mínútur voru eftir af leiknum. Síðasta færi leiksins fékk Grani eftir sendingu fyrir frá Atla Viðari. Markvörður Keflavíkur náði að verja, Allan fylgdi á eftir en vippa hans var laus og fram hjá markinu.
Maður leiksins: Tryggvi Guðmundsson, gífurlega duglegur, ógnandi og skoraði í sínum fyrsta leik með FH.
|