Mán 14.mar 2005
FH 0 - HK 3
Eftir fínan fyrri hálfleik gegn HK í Fífunni var hreinlega valtað yfir okkar menn í þeim síðari. Þegar upp var staðið höfðu sprækir Kópavogspiltar skorað þrjú mörk gegn engu marki FH. Það sem vakti kannski helst athygli var sú deyfð sem var yfir okkar mönnumn og fullkomið andleysi.
Byrjunarlið FH í leiknum:
Daði
Gummi - Ármann Smári - Tommy - Freyr
Gamli - Ásgeir
Ólafur Páll
Jónsi - Atli Viðar - Hermann
Fátt markvert gerðist á upphafsmínútum leiksins. Leikmenn HK voru sprækir og pressuðu FH-inga stíft út um allan völl. Fyrsta markverða færi leiksins kom á 13. mínútu þegar Jónsi vann tæklingu upp í hægra horninu og sendi fyrir. Þar kom Atli Viðar aðvífandi og skaut að marki en skotið var laust og endaði í fanginu á Gunnleifi. Tveimur mínútum síðar skallaði Tommy boltann yfir eftir hornspyrnu frá Hermanni.
Í fyrri hálfleik spiluðu FH-ingar laglega á milli sín og á löngum köflum í leiknum sýndu þeir töluverða yfirburði en þeir áttu erfitt með að skapa sér færi og þessi tvö færi sem komu á fyrsta korterinu urðu einu færin sem FH fékk fram að hléi.
Það voru einungis liðnar fjórar mínútur af síðari hálfleik þegar fyrsta færi FH leit dagsins ljós (kannski ekki dagsljós heldur frekar flúorljós). Ásgeir stakk sér inn fyrir vörn HK og virtist hafa misst boltann of langt frá sér. En vegna misskilnings á milli tveggja öftustu varnarmanna HK varð eitthvað óöryggi til þess að hann náði boltanum aftur. Hann náði þó aldrei almennilegu skoti að marki og á síðustu stundu náðu HK-menn að bjarga með því að senda boltann í horn.
Á 56. mínútu skoruðu leikmenn HK. Hægri kantmaður þeirra komst inn fyrir Frey og hann svaraði með því að brjóta á honum. Aðstoðarardómari veifaði flagginu af miklum móð en dómarinn lét leikinn halda áfram. Varnarmenn FH hikuðu aftur á móti og því var eftirleikurinn auðveldur fyrir sóknarmenn HK og þeir skoruðu auðveldlega í hálfautt markið.
Mínútu eftir að HK skoraði fengu þeir vítaspyrnu. Daði hljóp út á móti sóknarmanni HK og varð á undan í boltann en tók leikmanninn niður í leiðinni. Það má svo sem deila um hvort þetta hafi verið sanngjarn dómur en víti var dæmt. Hörður Már Magnússon skoraði auðveldlega úr vítinu og staðan var því orðin 2-0.
Eftir seinna mark HK virtist sem FH-ingar vöknuðu upp við vondan draum. Tómas Leifsson átti þó nokkrar liprar rispur eftir að hann kom inn á á 68. mínútu. Sú besta kom þegar hann hljóp í gegnum alla vörn HK á 75. mínútu. Hann átti bara eftir að hlaupa í gegnum Gunnleif. Eftir það hrökk boltinn út og Tómas skaut í afturendann á Pétri sem hafði komið inn á í kringum 60. mínútu.
HK bætti við sínu þriðja marki á 86. mínútu. Eftir snarpa sókn upp hægri kantinn var boltinn sendur fyrir og í miðjum vítateig kastaði sóknarmaður HK sér niður og skallaði boltann laglega í markið. Leikurinn fjaraði út og FH tapaði.
|