Sun 20.feb 2005
FH 1 - KR 1
FH og KR skildu jöfn í kaflaskiptum leik í Egilshöllinni í kvöld. Leikurinn mun seint fara í sögubækur fyrir tilþrif og var fyrri hálfleikur með afbrigðum daufur. Bæði lið hresstust í þeim síðari og lokaniðurstaðan verður að teljast sanngjörn miðað við gang leiksins.
Byrjunarlið FH var þannig skipað:
Daði
Gummi - Sverrir - Freyr - Hermann
Heimir Guðm. - Grani
Ólafur Páll
Atli Viðar - Ármann Smári - Pétur
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og lítilli knattspyrnu til að byrja með. KR-ingar virkuðu ögn sprækari fyrstu 10 mínúturnar en fyrstu almennilegu færi leiksins fengu FH-ingar á 11. mínútu. Þá hentist Ólafur Páll upp hægri kantinn og gaf hættulegan bolta inn í teig. Þar skaut Atli Viðar að marki. Upp úr því reyndu KR-ingar að koma boltanum út úr teig en þar voru FH-ingar fjölmennir. Boltinn barst því inn fyrir vörn KR og skyndilega var Grani staddur einn gegn Kristjáni Finnbogasyni en skaut boltanum beint upp í hendurnar á honum. Sennilega hræddur um að fá takkana frá Kristjáni í andlitið (eða á þaðan af verri stað).
Ellefu mínútum seinna leit fyrsta færi KR-inga dagsins ljós. Eftir að Sverrir hafði náð að skutla sér fyrir skot þeirra inni í teig barst boltinn út til hægri. Þaðan kom góð sending fyrir markið sem Garðar Jóhannsson stangaði í átt að marki en rétt yfir. Varnarmenn FH voru þarna gjörsamlega úti á þekju. Þremur mínútum seinna átti Garðar svo aftur skalla rétt yfir mark FH.
Næsta markverða færi leiksins kom á 45. mínútu og það áttu FH-ingar. Pétur sneri á vinstri bakvörð KR-inga, lék inn að miðju og þrumaði með vinstri á markið en boltinn fór rétt yfir.
Síðari háflleikur var töluvert fjörugri en sá fyrri. Okkar menn höfðu komið sér í fá marktækifæri í fyrri hálfleik og voru staðráðnir í því að gera betur í þeim síðari. Hraðinn í leiknum jókst umtalsvert og leikurinn varð ögn skemmtilegri fyrir vikið. FH gerði eina breytingu á sínu liði í hálfleik. Út af kom Hermann en í hans stað og sömu stöðu kom Ásgeir.
Á 50. mínútu tók Atli Viðar aukaspyrnu sem rataði í gegnum varnarvegg KR-inga. Þar fékk Ármann Smári boltann í lappirnar og skaut að marki, Kristján varði með löppunum en þaðan hrökk boltinn út og aftur var spyrnt að marki en Kristján náði þá að slæma stóru tánni í boltann og bjargaði þar með marki.
Í síðari hálfleik færði Ólafur Páll sig mikið út í vinstri kant. Þar átti hann fjölmargar rispur fram og til baka og reyndist KR-ingum mjög erfiður. Á 56. mínútu lék hann skemmtilega á Jökul Elísarbetarson og sendi fyrir. Boltinn fór allt of nálægt Kristjáni, reyndar svo nálægt að hann rétt náði að blaka boltann í horn áður en hann fór yfir hann og í markið.
Tómas Leifsson kom inn í staðinn fyrir Ármann Smára á 58. mínútu. Ármann var eitthvað tæpur en Tommi átti eftir að reynast mjög sprækur fram á við. Þremur mínútum seinna nældi Heimir Guðmunds. sér í gult spjald fyrir brot rétt fyrir utan teig FH. KR-ingar fengu aukaspyrnu og eftir að skotið hafði verið að marki komst Garðar Jóhannsson einn inn fyrir gegn Daða. Daði aftur á móti varði frá honum úr gjörsamlega ómögulegri stöðu. Sennilega verður þetta að skrifast á Garðar því Daði virtist vera lagstur þegar hann skaut að marki.
KR-ingar komust yfir á 66. mínútu. Boltinn barst í átt að teig FH-inga. Daði hljóp út í boltann en keyrði á Sverri og Frey. Þaðan barst boltinn út fyrir teig og Sigmundur Kristjánsson átti ekki í miklum vandræðum með að senda boltann í autt markið. Einstaklega klaufalegt mark. Fjórum mínútum seinna átti svo Sigmundur skalla rétt fram hjá marki FH eftir lipra sókn KR-inga upp vinstri kantinn.
Jónas Grani jafnaði metin fyrir FH á 70. mínútu. Eftir mikla þvögu í teig KR þar sem hvert skotið af öðru hafnaði í löppum og Kristjáni ákvað Grani að taka málin í sínar hendur. Hann fékk boltann, tók létt ballettspor og sendi svo knöttinn í netið upp við stöng vinstra megin.
Ólafur Páll fór út af rétt eftir markið. Hann var búinn að eiga ágætisleik. Inn á fyrir hann kom Atli Guðnason. Tómas náði sér í gult spjald á 77. mín þegar hann komst inn í teig KR. Þar var eitthvað stuggað við honum og hann féll við. Gylfi vildi meina að um leikræna tilburði væri að ræða og því uppskar Tommi gult spjald. Þetta gula spjald Tomma var það síðasta markverða sem gerðist í þessum leik.
Maður leiksins: Ólafur Páll.
|