Sun 06.feb 2005
Þróttur R. 2 - FH - 2
|
Mynd: this.is/fh |
Lið FH og Þróttar skildu jöfn í hörkuleik í Egilshöllinni fyrr í kvöld. Það er því ljóst að FH-ingar fara upp úr A-riðli Reykjavíkurmótsins. Nú stendur yfir leikur KR og Leiknis og er það úrslitaleikur um það hvort liðið fylgir FH í fjögurra liða úrslit mótsins.
Byrjunarlið FH var á þessa leið:
Valþór
Sverrir - Auðunn - Freyr
Simmi Hermann
Heimir Guðm. - Gummi
Ólafur Páll
Pétur - Ármann Smári
Þróttarar hófu leikinn af miklum krafti og gekk stundum mikið á í vítateig FH-inga fyrstu mínúturnar. FH-ingar áttu þó nokkrar skyndisóknir og á 10. mínútu sendi Freyr boltann upp miðjuna á Ármann Smára. Ármann framlengdi boltann laglega á Gumma sem var þá kominn einn inn fyrir vörn Þróttar. Gummi átti ekki í vandræðum með að klára færið og skoraði með því að renna boltanum framhjá markverði Þróttar.
Eftir markið var jafnræði með liðunum framan af fyrri hálfleik. Þróttarar áttu þó hættulegri færi. Á 29. mínútu þurfti t.d. Valþór að taka á honum stóra sínum þegar sóknarmaður Þróttar var kominn einn inn fyrir. Valþóri tókst að tækla boltann af honum en það mátti litlu muna.
Á 40. mínútu náðu Þróttarar að jafna leikinn eftir langa og þunga sókn. Þar var að verki Sævar Eyjólfsson, sem skoraði með laglegu skoti rétt fyrir utan teig.
Strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks fengu Þróttarar algjört dauðafæri eftir að miðjumenn FH höfðu misst boltann á slæmum stað. Eftir fyrirgjöf frá hægri var leikmaður nr. 9 staddur á auðum sjó fyrir opnu marki en hann skaut boltanum á einhvern undarlegan hátt fram hjá markinu.
Á 60. mínútu fengu FH-ingar hornspyrnu. Ólafur Páll tók spyrnuna og Freyr stangaði boltann í netið. Glæsilegt mark en aðstoðardómari sá eitthvað athugavert við markið og því var það ekki látið standa. Mínútu síðar skölluðu Þróttarar í þverslá FH-inga.
Nokkrar breytingar voru gerðar á liði FH þegar fór að líða á seinni hálfleikinn. Simmi og Hermann skiptu fyrir Atla Guðna og Tomma Leifs. Á 73. mínútu skoruðu svo leikmenn Þróttar glæsilegt mark með skoti af löngu færi, óverjandi fyrir Valþór í markinu.
Þegar sex mínútur voru eftir af leiknum fékk Pétur glæsilega sendingu upp í hægra hornið. Þar lék hann á varnarmann Þróttar og sendi boltann fyrir. Tómas var þar mættur og sendi boltann í netið ótrúlega yfirvegað.
Maður leiksins: Sverrir Garðarsson
|