Heim
Fréttir Leikdagar/skýrslur Leikmenn Viðtöl Pistlar Skóhillan FH-ingurinn Lög og textar Könnun Spjallið Annar flokkur Tenglar Myndir Sendu póst
Sun 23.jan 2005
FH 0 - Leiknir 0
Í sínum fyrsta leik á Opna Reykjavíkurmótinu mættu Íslandsmeistarar FH sprækum Leiknismönnum sem spila í 2. deild. Til að gera langa sögu stutta þá tókst hvorugu liðinu að skora í leiknum og voru sóknartilburðir okkar manna tilviljunarkenndir og einhæfir. Leiknismenn börðust vel og uppskáru eftir því. FH-ingar aftur á móti spiluðu illa og nýttu sér alls ekki þann getumun sem augljóslega var á liðinum. Menn verða bara að hysja upp um sig brækurnar og átta sig á því að það kominn tími til að fara að spila fótbolta aftur.  

Byrjunarlið FH:


Valþór
Gummi - Sverrir - Freyr - Heimir
Ólafur Páll - Grani - Gamli
Atli Viðar - Ármann Smári - Pétur


Gangur leiksins
Á 8. mínútu tók Ólafur Páll hornspyrnu sem endaði næstum í marki Leiknismanna eftir töluvert óðagot í teignum. Þremur mínútum síðar sendi Ólafur Páll boltann á Gumma við miðlínu. Í stað þess að æða með boltann upp kantinn ákvað Gummi að senda langan bolta í átt að vítateig Leiknismanna. Þar kom Ármann Smári svífandi en skallaði boltann rétt yfir markið.


Skömmu síðar skaut Sverrir í sóknarmann Leiknis þegar hann ætlaði að hreinsa frá marki. Við það komst Leiknismaðurinn óvænt inn fyrir vörnina en Sverrir gerði sér lítið fyrir og hljóp hann uppi og komst fyrir skot hans að marki. Á 20. mínútu náði Ólafur Páll góðu skoti að marki Leiknis en markvörður Leiknis varði vel fast skot.
Níu mínútum síðar fengu FH-ingar hornspyrnu frá vinstri. Atli Viðar spyrnti fyrir markið en Ármann Smári skallaði boltann naumlega yfir markið.


Á 34. mínútu leit sannkallað dauðafæri dagsins ljós. Grani fékk háa sendingu sem hann fleytti áfram á Ármann Smára. Ármann Smári var þá skyndilega kominn einn inn fyrir vörn Leiknis og skaut að marki en skot hans fór beint í markvörð Leiknis og skaust þaðan í horn. Þarna hefði Ármann Smári átt að skora.



Á 36. mínútu fékk Ármann Smári enn eina háa sendingu í átt að vítateig. Hann lagði boltann snyrtilega fyrir Atla Viðar sem skaut með vinstri rétt yfir mark Leiknis.
Skömmu síðar sóttu Leiknismenn lipurlega en þó tilviljunarkennt upp vinstri kantinn. Sóknin virtist vera að renna út í sandinn þegar ágætur kantmaður þeirra ákvað að reyna skot að marki. Boltinn fór rétt yfir mark FH en stuðningsmenn Leiknis fögnuðu eins og um mark hefði verið að ræða. Tvímælalaust hættulegasta færi Leiknis í leiknum.


FH-ingar hertu tökin á leiknum þegar tók að líða að lokum fyrri hálfleiks og oft áttu Leiknismenn í vök að verjast en allt kom fyrir ekki. Staðan í hálfleik var því 0-0.


Í hálfleik gerðu FH-ingar breytingu á liði sínu. Út af fór Pétur og inn kom Atli Guðnason. Á 60. mínútu gerðu svo FH-ingar aðra breytingu á liði sínu. Út af fóru Grani og Ármann Smári en Simmi og Ásgeir tóku þeirra stöður á vellinum. Á 62. mínútu fengu Leiknismenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig FH. Spyrnan var vel framkvæmd, fór yfir vegginn en Valþór var vel á verði og sló boltann yfir markið.


Á 66. mínútu sendi Gamli boltann þvert yfir vítateiginn frá hægri á Atla Guðnason. Atli var snöggur að átta sig og skaut að marki en markvörður Leiknis átti ekki í vandræðum með að verja frekar slakt skot. Gamla var skipt út af á fjórum mínútum síðar og í hans stað kom Tómas Leifsson. Mínútu síðar fengu Leiknismenn aftur aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig FH. Nú var það leikmaður nr. 8 sem skaut að marki og aftur náðu þeir að senda boltann fram hjá veggnum en Valþór var sem áður vel á verði og varði gott skot í horn.


Á 72. mínútu var svo komið að FH-ingum að fá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig Leiknismanna. Ásgeir tók spyrnuna og negldi boltanum rétt fram hjá marki Leiknis. Á 77. mínútu átti Ásgeir svo óvænt skot í stöng Leiknis. Því miður voru leikmenn Víkings að hlaupa fram hjá þannig að ég missti af þessu en samkvæmt upplýstum mönnum við hlið mér var þetta ágætis skot.


Á 80. mínútu var Ólafi Páli skipt út af og í hans stað kom Jón Ragnar Jónsson. Síðustu mínútur leiksins reyndu FH-ingar mikið að spóla sig í gegnum vörn Leiknis. Á 83. mínútu sendi Gummi boltann fyrir markið úr aukaspyrnu þar barst boltinn út að vítateigslínu þar sem Ásgeir beið en hann þrumaði boltanum rétt yfir markið. Þremur mínútum fyrir leikslok fékk Atli Guðnason svo síðasta færi FH í leiknum. Boltinn barst þá inn fyrir vörn Leiknis og Atli komst á auðan sjó einn gegn markverði en sendi boltann yfir markið úr úrvalsfæri.


Þegar líða tók á seinni hálfleikinn varð leikurinn frekar tilviljunarkenndur. Leiknismenn áttu engar almennilegar sóknir að marki FH en FH-ingar voru lítið skárri. Sóknartilburðir okkar manna voru einhæfir og lítið var um kantspil og nánast ekkert kom frá miðjumönnum FH í leiknum. Ólafur Páll átti nokkra lipra spretti og sýndi okkur það á stundum að það er mikið í hann spunnið en að öðru leyti var miðjan ekki góð. Vörnin var ágæt í leiknum. Þar var Sverrir afskaplega traustur og Freyr gaf honum lítið eftir. Heimir var mjög öflugur í vinstri bakverði en Guðmundur átti í svolitlu basli. Valþór var traustur í markinu og greip nokkrum sinnum vel inn í leikinn. Sóknarmenn FH fengu úr litlu að moða og sóknarleikur FH einkenndist af því að senda háa bolta í átt að teig þar sem Ármann Smári átti að stanga boltann eða taka hann niður. Ef það var ekki í boði var reynt að hnoðast upp miðjuna sem var þétt fyrir hjá Leiknismönnum. Leiknismenn börðust eins og ljón í leiknum. Þeir sýndu oft lipra spretti en það vantar líka herslumuninn hjá þeim eins og okkur.


Maður leiksins: Sverrir Garðarsson


<< Eldri frétt     Nýrri frétt >>
Staðan

Íslandsmeistarar 2004

Sæti Félag Stig
1. FH 37
2. ÍBV 31
3. ÍA 31
4. Fylkir 29
5. Keflavík 24
6. KR 22
7. Grindavík 22
8. Fram 17
9. Víkingur 16
10. KA 15


Markahæstir

Pétur Sigurðsson 3
Guðmundur Sævars. 1
Tómas Leifsson 1


Síðustu leikir

5 4 3 2 1
J J U J


Síðasti leikur

Þróttur - FH 2 2


Næsti leikur

? - FH
13. feb. 21:00
Egilshöll

Fasteignastofan Góa/Linda Sigga og Timo Fjölsport Aðalskoðun
2004 This.is/FH Hönnun: DesignEuropA
Heim