Heim
Fréttir Leikdagar/skýrslur Leikmenn Viðtöl Pistlar Skóhillan FH-ingurinn Lög og textar Spjallið Tenglar Myndir Sendu póst
Fös 23.júl 2004
Viðtal við Frey Bjarnason
Mynd: [email protected]
Það er á engan hallað þó fullyrt sé að Freyr Bjarnason hafi verið einn af albestu leikmönnum FH í fyrri umferð Íslandsmótsins. Við fengum þennan geðþekka varnarmann í viðtal á dögunum og hér má sjá afraksturinn.

Hverjir eru fjölskylduhagir þínir?
Kærastan mín heitir Harpa Ingólfsdóttir.


Hvað starfar þú fyrir utan að leika knattspyrnu?
Ég er blaðamaður á Fréttablaðinu.


Þú ert alinn upp hjá ÍA. Hvernig var að vera þar? Spilaðirðu alla tíð sem varnarmaður?
Ég er fæddur og uppalinn á Skaganum og spilaði þar upp alla yngri flokkana. Ég var alltaf á miðjunni og spilaði ekki að ráði í vörn fyrr en ég fór í FH. Það var mjög gott að alast upp í ÍA. Hefðin er mikil og metnaðurinn fyrir því að ná langt er gífurlegur. Þess er krafist að titlar vinnist, sama í hvaða flokki maður er. Að alast upp við þennan hugsunarhátt er hið besta mál fyrir ungan fótboltamann.


Þú fórst til Þróttar á Neskaupsstað 1997 í láni frá ÍA. Þar varðstu næst markahæstur. Varstu að spila frammi þar?
Hvernig var tíminn á Neskaupsstað? Á fyrsta ári mínu í meistaraflokki tók Ivan Golac við ÍA og ég fékk engin tækifæri. Þá ákvað ég að breyta til og fara austur og sé ekki eftir því. Það var frábær tími og eitt skemmtilegasta sumar sem ég hef upplifað. Þar hitti ég meðal annarra fyrir Valþór markvörð Halldórsson sem var að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki. Ég spilaði flesta leikina á miðjunni en nokkra í vinstri bakverði. Ég náði að setja nokkur mörk eins og ég hafði gert af og til í gegnum yngri flokkana, allt þar til ég kom í FH :) Því miður dugði það ekki til því við féllum úr 2. deild og fengum m.a. ekki stig á heimavelli.


Svo voru fá tækifæri hjá ÍA 1998 undir stjórn Loga Ólafssonar. Þar var fyrir Heimir Guðjónsson, Gamli. Margir fleiri nafnkunnir leikmenn voru að spila með ÍA á þessum tíma. Einhverjir eftirminnilegir karakterar?
Ég fór aftur upp á Skaga 1998 og ætlaði að sanna mig þar. Því miður datt ég út úr byrjunarliðinu eftir fyrstu tvo leikina og náði mér ekki á strik eftir það. Ég gleymi því aldrei þegar Mihaljo Bibersic (Mikki) spilaði fyrsta leikinn með okkur á móti Keflavík uppi á Skipaskaga. Ég held ég hafi aldrei séð jafn feitan knattspyrnumann. Brjóstin og bumban sáust auðveldlega í gegnum níðþröngan búninginn. Hann hreyfðist ekki í leiknum og var sendur heim nokkrum dögum síðar. Hann skammaðist sín líka sjálfur fyrir aukakílóin því hann fór aldrei í sturtu fyrr en allir aðrir voru búnir. Sá gamli var þarna á þessum tíma og stóð sig ágætlega á miðjunni ásamt Alla Högna og Jóa Harðar. Ég held að Hómerinn sé eins og rauðvínið, hann batnar bara með árunum.


Svo fórstu í Skallagrím hluta tímabilsins 1998 og lékst 9 leiki. Varstu þar á sama tíma og Ólafur Jóhannesson? Þar skorarðu líka í þriðja hverjum leik
- varstu sóknarmaður þar?
Þegar ég var dottinn úr liðinu hjá ÍA ákvað ég að fara í Skallagrím sem var þá undir stjórn Skagamannsins Sigurðar Halldórssonar, Sigga Donna. Þar spilaði ég á miðjunni við hlið Haraldar Hinrikssonar og í sókninni var Hjörtur Hjartarson. Fyrsti leikur minn með Skallagrími var einmitt gegn FH í Borgarnesi, sem við töpuðum 0:2. Að mínu mati var FH með sterkasta liðið sem við spiluðum við það sumar. Síðan tók Óli Jó við af Sigga þegar nokkrir leikir voru eftir og við enduðum í fimmta eða sjötta sæti. Óli reyndi að létta andrúmsloftið í hópnum eftir frekar slakt gengi og tókst það bara ágætlega.


Logi notaði þig frekar lítið hjá ÍA 1999 og árið eftir fórstu niður um deild þegar þú komst til FH.  Hvernig kom það til að þú ákvaðst að koma yfir til FH árið 2000 og hvers vegna varð FH fyrir valinu? Varstu ekkert smeykur um að Logi myndi halda áfram að hafa þig utan við liðið?
Ég fékk ekki mikið að spreyta mig 1999 en meiðsli sem ég lenti í um vorið settu smá strik í reikninginn. Þetta var engu að síður skemmtilegt sumar. Við spiluðum tvær umferðir í Evrópukeppninni og ég kom m.a. inn á gegn Lokeren úti í Belgíu fyrir Heimi. Síðan komumst við í úrslit bikarsins en töpuðum gegn KR. Eftir tímabilið hjá ÍA langaði mig að breyta til og úrvalsdeildarlið Breiðabliks og FH komu til greina. Logi lagði hart að mér að koma í FH og sannfærði mig um að við myndum fara beinustu leið upp í úrvalsdeild með valinkunna menn á borð við Heimi og Óla Adolfs innanborðs. Ég ákvað því að slá til, þó svo að upphaflega hafi ég ætlað að spila í úrvalsdeildinni. Mér fannst líka mikil áskorun að taka þátt í koma FH í efstu deild í fyrsta sinn í fimm ár.


Þú hefur blómstrað á þessari leiktíð, búinn að spila allflesta leiki og skorað glæsilegt mark. Ekki til að kasta rýrð á frammistöðu þína í fyrra en hver er ástæðan fyrir þessu fantaformi núna?
Fyrst og fremst slapp ég við meiðsl á undirbúningstímabilinu í fyrsta sinn síðan 2001. Ég gat einbeitt mér betur að æfingum og leikjum og með auknu formi hefur sjálfstraustið aukist. Ég hef náð upp góðri einbeitingu fyrir hvern einasta leik og mæti bara tilbúnari en oft áður út á völlinn. Mótið er samt ekki búið og það þýðir ekkert að slappa neitt af.


Hverjar telur þú þínar sterku hliðar?
Ég er sterkur í loftinu og get gefið góðar sendingar fram á við. Ég er líka frekar yfirvegaður og held að það geti verið mikill kostur í boltanum.


Hvað þarftu að bæta?
Ég þarf að vinna fleiri skallabolta eftir horn- og aukaspyrnur sem við eigum. Síðan mætti ég alveg vera aðeins fljótari. Annars er það eiginlega annarra að meta eins og með kostina.


Hvort hentar þér betur að spila sem bakvörður eða miðvörður?
Mér líður oftast betur í miðvarðarstöðunni og finnst ég eiga betur heima þar. Samt hefur verið mjög gaman að spila bakvörð í sumar og ég hef ekki yfir neinu að kvarta.


Þú lékst einn leik í fyrra á miðri miðjunni - hefurðu leikið þar eitthvað að ráði eða var það út úr neyð?
Ég spilaði á miðjunni gegn Fylki í Árbænum í fyrra en hef ekkert spilað þar í sumar. Eins og áður segir er ég gamall miðjumaður en í þessu tilviki var um algjört neyðarástand að ræða. Það var gerð dauðaleit  miðjumanni í þennan leik og enginn fannst nema ég....


Hvaða leikir með FH hafa verið eftirminnilegastir?
Þeir eru nokkrir. Fyrsti leikur minn með FH gegn KA árið 2000 á Akureyri er eftirminnilegur en ekki af góðu því þá var ég rekinn út af. Bikarleikirnir það ár við Keflavík og ÍA eru líka minnistæðir og engu munaði að við kæmumst í úrslitin. Leikirnir gegn Villareal 2002 voru líka eftirminnilegir sem og leikurinn um daginn úti í Wales. Síðan voru KR-leikirnir tveir í fyrra, 7-0 og undanúrslitin í bikarnum alveg frábærir og lifa vel í minningunni. Úrslitaleikurinn í bikarnum í fyrra var líka skemmtilegur fyrir utan auðvitað lokatölurnar. Ekki má síðan gleyma tveimur sigrum í deildarbikarnum. Vonandi á ég samt ennþá eftir að spila mína eftirminnilegustu leiki með FH.


Ertu hjátrúarfullur fyrir leiki?
Já, ég myndi segja það. Á þessu tímabili hef ég til dæmis aldrei pússað skóna mína og það hefur bara virkað ágætlega. Síðan er ég alltaf í sömu jungle-skýlunni innanundir stuttbuxunum. Svo finnst mér öruggara að fara fyrst í vinstri skóinn og setja á mig vinstri legghlífina.


<< Eldri frétt     Nýrri frétt >>
Staðan

Sæti Félag Stig
1. FH 45
2. Valur 32
3. ÍA 26
4. Keflavík 24
5. KR 22
6. Fylkir 20
7. Fram 17
8. ÍBV 17
9. Grindavík 15
10. Þróttur 10

Markahæstir

Allan 13
Tryggvi 13
Auðun 4


Síðustu leikir

5 4 3 2 1
U U U U T


Síðasti leikur

ÍA - FH 2 1


Næsti leikur

FH - Fylkir
11. sept.

14:00

Kaplakriki

Laust auglýsingapláss Fjölsport Fasteignastofan Aðalskoðun Sigga og Timo
2004 This.is/FH Hönnun: DesignEuropA
Heim musikogsport.net musikogsport.net