Mán 07.jún 2004 Þessi frétt hefur verið skoðuð 188 sinnum.
Endurminningar Harðar Magnússonar 3. hluti
|
Mynd: Björn Jónsson |
Eftir frábæran árangur var komið að leiðarlokum hjá silfurliði tveggja síðustu ára. Við misstum sex sterka leikmenn fyrir tímabilið árið 1995. Andri Marteinsson, Petr Mrazek, Drazen Podunavac, Þórhallur Víkingsson, Þorsteinn Jónsson og Atli Einarsson yfirgáfu félagið. Við fengum í staðinn Tékkann Stefan Toth og nokkra efnilega leikmenn en það var ekki nóg. Hörður Hilmarsson þjálfari fór í Val og í hans stað kom Ólafur Jóhannesson.
Eins og ég minntist á áður gerði Óli frábæra hluti á árunum 1988-91. Það var hins vegar á brattann að sækja fyrir hann þetta tímabil. Gríðarlegar breytingar höfðu orðið á liðinu og erfitt reyndist að fylla í skörð sterkra leikmanna. Starf Óla var því ekki öfundsvert. Ég tók lítið þátt í undirbúningi fyrir mótið. Ég lék um fjögurra mánaða skeið með svissnesku liði og kom ekki í undirbúninginn fyrr en um miðjan apríl. Ég fékk gott tilboð frá Valsmönnum um veturinn en hafnaði því. Uppistaðan í liðinu var samt sem áður mjög sterk. Stebbi var í markinu, Óli Kristjáns, Jón Sveinsson og Auðunn Helgason voru í vörninni. Á miðjunni voru Steini Halldórs, Hallsteinn, Stefan Toth, Hrafnkell K. og Óli Björn Stephensen. Frammi voru ég og Jón Erling. Davíð Ólafsson og Arnar Þór Viðarsson spiluðu sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk og komu nokkuð við sögu sem og Níels Dungal og Lúðvík Arnarson.
|
Liðið árið 1995
|
|
Hörður og Milan Jankovic í baráttu í leik FH og Grindavíkur.
|
Við byrjuðum mótið glæsilega með 1-0 útisigri á KR og heimasigri á Grindavík 2-0. Fullt hús eftir tvo leiki og við vorum efstir ásamt Skagamönnum. Við mættum einmitt ÍA í þriðju umferðinni upp á Skipaskaga. Ég missti af þeim leik vegna meiðsla. Við töpuðum 3-1 og þá má eiginlega segja að hrunið mikla hafi byrjað. Við töpuðum næstu fimm leikjum í deildinni og okkur var hent út úr bikarkeppninni á heimavelli gegn Grindavík. Við náðum loks stigi gegn Leiftri á heimavelli í níundu umferð. Við vorum mjög óheppnir að vinna ekki þann leik. Við vorum með sjö stig eftir fyrri umferðina en vorum þó ekki á botninum, Valur var með 7 stig en með lakari markatölu og Fram var með 8 stig. Við vorum þó enn værukærir og gerðum okkur ekki grein fyrir því að við vorum að berjast fyrir tilveru okkar í deildinni. Við fengum vini okkar úr Vesturbænum í fyrsta leik tíundu umferðar. Það var ótrúlegur leikur og kannski dæmigerður fyrir okkur þetta árið. KR komst yfir en Auðunn jafnaði og svo skoraði ég skemmtilegt mark 2-1. En þá byrjaði ballið, KR jafnaði úr víti á 88. mínútu. Vítið kom eftir að dæmd var fáránleg töf á Stebba í markinu. Ég var nýfarinn útaf vegna meiðsla og við fengum vítaspyrnu á lokasekúndunni. Þorsteinn Halldórsson tók spyrnuna en hún var varin. Eitt stig, rýr uppskera eftir góðan leik okkar. Við töpuðum næstu þremur leikjum gegn Grindavík, ÍA og Val. Skagamenn voru með yfirburðarlið og þeir voru heppnir að vinna okkur en enn og aftur þá klúðruðum við hlutunum í lokin. Óli Jó fékk nóg eftir tapið gegn Val í 13. umferð og sagði upp störfum. Þetta var ókræsileg endurkoma hjá Óla. Liðsandinn var slæmur, menn hnakkrifust á æfingum og leikjum og við vorum orðnir þreyttir hver á öðrum. Þetta hafði ekkert með Óla Jó að gera. Hann gerði sitt besta en fékk við lítið ráðið. Áður en Óli fór þá lékum við tvo hörkuleiki í Evrópukeppni félagsliða gegn norðurírska liðinu Glenavon. Stefán Arnarson átti stórleik í markinu í fyrri leiknum ytra og hann öðrum fremur tryggði okkur markalaust jafntefli. Við vorum því vongóðir fyrir síðari leikinn í Krikanum. Við
|
Hörður klipptur niður og víti dæmt í leiknum gegn Glenavon.
|
lékum ágætlega en lánleysi liðsins var algert. Ég lét verja frá mér vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Þeir skoruðu eina mark leiksins um miðjan síðari hálfleik. Stebba var greinilega hrint í markinu en markið var látið standa. Þeir fengu þýska liðið Werder Bremen í næstu umferð og það má því segja að vítaspyrnuklúðrið mitt hafi verið um 20-30 milljóna króna virði eins og Þórir Jónsson orðaði það svo skemmtilega.
Það var leitað til Inga Björns Albertssonar til að reyna að bjarga sökkvandi skipi. Hann fékk fimm leiki. Það breyttist lítið við töpuðum gegn ÍBV og síðan gegn Breiðablik og vorum nánast fallnir. Við mættum Keflvíkingum á heimavelli í 16. umferð. Niðurstaðan varð 2-2 jafntefli og þar með vorum við endanlega fallnir. Lúðvík Arnarson skoraði tvö lagleg mörk, líklega hápunktur hans á ferlinum? Lúlli var mikil markamaskína í yngri flokkum en meiðsli komu í veg fyrir að hann næði að springa algerlega út. Það var dæmigert fyrir liðið að við unnum tvo síðustu leiki tímabilsins. Við enduðum með 15 stig í níunda sæti. Ég skoraði 8 mörk í deildinni og var sjötti markahæsti maður mótsins. Það skipti hins vegar litlu máli. Ég átti mína sök á fallinu eins og aðrir lykilmenn.
Það voru einnig aðrir þættir sem útskýra fallið. Fjármál deildarinnar voru í miklu ólagi og við náðum ekki að fylla upp í þau skörð sem urðu til á tímabilinu. Eftir sjö ár samfleytt í efstu deild, þau lengstu í sögu FH var komið að tímamótum á öllum vígstöðvum. Leiðtogarnir okkar utan vallar, Þórir Jónsson og Viðar Halldórsson, hurfu af vettvangi. Þeir voru eðlilega mjög þreyttir og vildu hleypa öðrum mönnum að. Þeir fylgdust auðvitað vel með en voru ekki í stjórn. Með þeim fór mikill sjarmi og lykilmenn flúðu af vettvangi. Ólafur Kristjánsson, fyrirliði, fór í KR, Jón Sveinsson, Auðunn Helgason, Þorsteinn Halldórsson, Stefán Arnarson fóru einnig. Þetta var gríðarleg blóðtaka. Ég var á báðum áttum hvort ég ætti að fara. Ég var þrítugur og hafði spilað í meistaraflokki FH í 15 ár. Ég hafði spilað níu landsleiki og að leika í næstefstu deild freistaði mín ekki mikið. Ég lét hins vegar tilleiðast aðallega vegna Þóris og Viðars sem lögðu mikla áherslu á að ég færi ekki. Þarna réð FH-hjartað en ekki skynsemin.
Árið 1996 var í sannleika sagt skelfilegt fyrir mig og FH. Ég náði mér aldrei á strik og liðið náði engu flugi undir stjórn Inga Björns Albertssonar. Það voru virkilega efnilegir strákar sem léku með liðinu þetta ár. Arnar Þór Viðarsson lék alla leikina, Daði Lárusson var í markinu, Davíð Ólafsson sýndi lipra takta og einnig Lúðvík Arnarson. Það voru fleiri ágætir fótboltamenn í liðinu, hinn frábæri félagi minn Hallsteinn Arnarson sem hélt tryggð við félagið, Hrafnkell Kristjánsson, Guðlaugur Baldursson og Jón Gunnar Gunnarsson fengu tækifæri með liðinu. Það voru einfaldlega of miklar breytingar á hópnum til að liðið gæti plummað sig. Ingi Björn Albertsson hætti á miðju tímabili og HelgiRagnarsson tók við og gerði ágæta hluti miðað við aðstæður. Við lentum í sjötta sæti með 22 stig, unnum sex leiki en töpuðum jafnmörgum. Ég skoraði 7 mörk, flest úr vítum. Ég lék illa og var einfaldlega búinn að fá nóg. Ég tilkynnti stjórnarmönnum deildarinnar í ágúst að ég ætlaði að breyta til. Ég vildi gera það með góðum fyrirvara og að koma heiðarlega fram. Ég vildi alls ekki að menn reyndu að fá mig til að skipta um skoðun. Það gat enginn gert.
|
Hörður í Valsbúningi í leik gegn sínum gömlu félögum
|
Árið 1997 var ég leikmaður Vals. Það var að mörgu leyti ágætur tími. Ég æfði eins og óður maður á undirbúningstímabilinu og var í feiknaformi. Ég var meira að segja með fremstu mönnum í langhlaupunum! En óheppnin elti mig. Ég meiddist illa í æfingaferð í Portúgal og missti úr sex mikilvægar vikur rétt fyrir Íslandsmótið. Ég náði mér ekki á strik upp við markið og skoraði aðeins 5 mörk í deild og bikar. Ég var búinn að svala forvitni minni hvernig það væri að spila með öðru liði. Það lá því beinast við að fara aftur í FH. Liðið hafði náð prýðilegum árangri árið áður en komst ekki upp þrátt fyrir 40 stig - ótrúlegt en það gekk erfiðlega að koma liðinu upp næstu árin og hreint með ólíkindum hvernig það þróaðist.
Pétur Ormslev var þjálfari árið 1998. Pétur hafði náð ágætum árangi með liðið árið áður og ég kunni vel við Pétur. Hann var stórkostlegur fótboltamaður en mér fannst hann reyndar svolítið sérstakur þjálfari. Æfingarnar voru rólegar en þegar kom að leikjunum þá var hann allt annar. Hann hafði frábært lag á að lesa leikinn og gera breytingar til að bæta leik liðsins. Ég átti í töluverðum erfiðleikum þetta tímabil með kálfana á mér og það tók mig tíma að komast í gang. Mér er minnistæður leikur gegn Þór á Akureyri í 2. umferð. Pétur tók mig útaf snemma í síðari hálfleik. Ég varð gersamlega trylltur. Að hann skyldi voga sér að taka mig útaf! Þannig hugsaði ég það. Ég lét Pétur heyra það óþvegið og fór alveg ofan í hann. Hann hélt hins vegar algerlega ró sinni. Einhverjar sögusagnir voru um það að ég hefði stangað hann! Sú saga er ekki rétt. Ég var eðlilega settur í skammarkrókinn fyrir næsta leik en þess má geta að við unnum Þór 1-0. Ég hélt mér á mottunni það sem eftir var tímabilsins eða eins og ég gat! Það voru skemmtilegir fótboltamenn í liðinu. Brynjar Gestsson, Davíð Ó, Jón Gunnar, Jónas Grani og Gummi Sævars. Svo voru harðjaxlar eins og Róbert Magnússon (ekki bróðir minn), Laugi og Daði var traustur í markinu.
|
Tolleringin fræga
|
Lokaleikurinn gegn Fylki í Krikanum var skrautlegur. Við vorum í þriðja sæti fyrir leikinn með 33 stig. Einu á eftir Víkingi. Þeir léku á heimavelli gegn Stjörnunni. Við fengum góð færi í leiknum og það besta á lokamínútunni þegar Davíð klikkaði í dauðfæri. Flautað var til leiksloka markalaust jafntefli var niðurstaðan. Við vorum komnir upp eða það héldum við. Leikurinn í Víkinni hafði dregist á langinn og það virtist sem að jafnteflið gæti dugað. Margir voru byrjaðir að fagna og við tollerðum þjálfarann en þá komu fréttirnar. Víkingur hafði skorað á 97. mínútu og tryggt sér sigur. Við sátum eftir með sárt ennið. Ég skoraði 10 mörk í 16 leikjum en var ekki alveg sáttur við frammistöðu mína. Þó að hún hafi verið allt í lagi. Pétur Ormslev hætti með liðið og við tók Magnús Pálsson.
|
Magnús Pálsson
|
Ég hafði leikið með Magga í mörg ár. Hann var samviskusamur leikmaður og einnig þjálfari. Maggi stóð sig ágætlega en var stundum svolítið óákveðinn á köflum en hann gerði samt góða hluti. Hópurinn var svipaður og árið á undan. Við byrjuðum af miklum krafti og burstuðum Fylki 4-0 á útivelli í fyrsta leiknum. Andri Marteinsson var aftur kominn til okkar og lék í vörninni. Við vorum misjafnir þetta tímabil. Við töpuðum stórt gegn Stjörnunni og Skallagrími en unnum ágæta sigra þess á milli. Enn og aftur réðust úrslitin í lokaleiknum. Við unnum auðveldan sigur gegn KVA og Stjarnan lék gegn Víði. Stjörnunni dugði jafntefli og sú varð niðurstaðan. Við vorum fastir í þessari fjandans deild. Fimm ár samfleytt og við vorum fjórum sinnum nálægt því að fara upp. Ég var valinn leikmaður ársins 1999. Ég skoraði 15 mörk í 18 leikjum í deildinni og skoraði þrjú í bikarnum. Þetta var besta ár mitt í töluvert langan tíma og hungrið var komið aftur.
|
Sæti í efstu deild loksins orðið að veruleika eftir langa bið
|
Það urðu umsvifsmiklar breytingar árið 2000. Það var stofnuð rekstrardeild fyrir meistaraflokk karla og 2.fl. Þórir Jónsson var kominn aftur og leiddi þennan hóp. Guðmundur Árni Stefánsson kom inn í starfið og varð formaður deildarinnar. Viðar Halldórsson hjálpaði einnig til á bak við tjöldin. Logi Ólafsson tók við liðinu og byggði upp frábært lið. Hann fékk til liðs við félagið sterka leikmenn. Heimir Guðjónsson, Ólafur Adolfsson,Freyr Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson og Baldur Bett sem kom á miðju tímabili styrktu liðið gríðarlega. Ég fann fyrir miklu meiri metnaði utan vallar og það smitaði út frá sér. Undirbúningstímabilið var skemmtilegt en fjandi erfitt. Þó að Logi virki góðlegur þá er hann þrælapískari en það skilaði sér. Helsti styrkur Loga er sá að hann fær menn til að hlaupa fyrir sig og leggja sig fram og það gerðum við. Hæfileiki hans til að fá menn til að spila fyrir hann er einnig mikilvægur og svo þekkir hann fræðin vel og er auðvitað stórskemmtilegur þegar það á við. Við fórum í stórskemmtilega æfingaferð til Portúgals. Það var æft tvisvar á dag. Harkan sex!
|
Hörður fagnar marki sem Freyr Bjarnason skoraði
|
Logi var með agann á hreinu og við máttum ekki einu sinni fá okkur lítinn bjór með matnum! Við fengum þó að skemmta okkur eitt kvöldið. Það var gaman en margir voru framlágir eftir örfáa bjóra enda var keyrslan búinn að vera mikil á æfingum og í leikjum. Það myndaðist frábær liðsandi sem FH býr að í dag. Við fórum í gegnum mótið með glans. Við fengum 43 stig. Unnum 13 leiki, gerðum fjögur jafntefli en töpuðum einum leik gegn Dalvík á heimavelli!
Við náðum frábærum árangri í bikarnum. Við slógum út Stjörnuna í 16 liða úrslitum, Keflavík í átta liða úrslitum eftir maraþon vítaspyrnukeppni. Við fengum erfiðan andstæðing í undanúrslitunum. ÍA uppi á skaga. Við áttum í fullu tré við þá og rúmlega það. Jón Þorgrímur kom okkur yfir og allt stefndi í sanngjarnan sigur en Skagamenn jöfnuðu með grísmarki 40 sekúndum fyrir leikslok þegar boltinn nánast fauk inn eftir hornspyrnu. Dæmigerð Skagaheppni. Logi tók mig útaf 10 mínútum fyrir leikslok og ég tók því ekki þátt í framlengingunni og vítaspyrnukeppninni. Hallsteinn Arnarson misnotaði víti í framlengingunni og leikurinn endaði með sigri heimamanna. Þvílík örlög, við vorum svo nálægt að komast í úrslitaleikinn. Þetta var hins vegar dæmigert fyrir sögu fótboltans í FH. Óheppni eða klaufaskapur, æi ég veit ekki. Nenni ekki að spá í það úr þessu. Ég skoraði 20 mörk í 18 leikjum í deildinni og varð markahæstur. Ég var einnig valinn leikmaður ársins annað árið í röð.
Ég hóf störf á Stöð 2/Sýn um mitt sumar árið 2000. Ég íhugaði að hætta eftir tímabilið til að sinna vinnunni og var meira að segja gerður að fyrirliða í lokaleiknum gegn Val. Ég lá undir feld eftir tímabilið. Mig langaði undir niðri að taka eitt ár í viðbót en ég vissi að það yrði erfitt útaf vinnunni. Ég sló til. Mig langaði til að prófa að leika aftur í efstu deild. Sú freisting var yfirsterkari þeirri að hætta. Logi styrkti liðið fyrir tímbilið, Hilmar Björnsson, Atli Viðar Björnsson og Jóhann Möller gengu til liðs við okkur. Hilmar var gerður að bakverði en hann lék með FH árið 1993 og kom þá um mitt mót. Hilmar hefur leikið bestu árin sín með FH og hann blómstraði í bakverðinum. Atli Viðar var frambærilegur sóknarmaður sem hafði skoraði mikið fyrir Dalvík. Heimir Guðjónsson lék frábærlega á miðjunni og Davíð Þór Viðarsson átti fast sæti í liðinu en ég þjálfaði hann í 5.flokki árið 1996! Hallsteinn Arnarson hætti hjá okkur og nokkrir fleiri eins og Ólafur Adolfsson og Jón Gunnar Gunnarsson. Undirbúningstímabilið hjá Loga var svipað og það fyrsta. Gríðarleg keyrsla. Við fórum aftur til Portúgals í stórskemmtilega ferð. Það sem stóð upp úr í þeirri ferð var sigur eldri leikmanna á yngri. Davíð Viðarsson fór fyrir sínum mönnum. Þeir léku Wimbledon-leikaðferðina, bombuðu fram og vörðust allir. Þeir náðu þriggja marka forskoti en við náðum að jafna og sigra í lokin. Þetta var fyrst og fremst sigur fótboltaandans. Ég skynjaði það að ég ætti erfitt með að komast í byrjunarliðið. Það var eins og Logi hefði ákveðið það að ég yrði 12. maður þessa leiktíð. Hann lék öðruvísi en árið á undan og mun varnarsinnaðri bolta. Það var að mörgu leyti skiljanlegt en stundum fannst mér varkárnin vera fullmikill sérstaklega á heimavelli. En þetta virkaði vel og árangur liðsins var mjög góður. Ég byrjaði á bekknum en kom alltaf inn á í síðari hálfleik. Atli Viðar Björnsson varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í 11. umferð og við það opnaðist minn möguleiki. Ég var ekki í góðu formi. Var búinn að vera slæmur í kálfanum og svo var vinnan tímafrek og ég hafði pínulítið gefið upp von um að fá að spila í byrjunarliðinu. Ég komst í betra form og sigurmark úr víti gegn KR í 12. umferð var sætt. Það var besti leikur minn á tímabilinu. Það var góður gangur á liðinu þegar kom að leiknum gegn Fram á Laugardalsvellinum í 16. umferð. Við gerðum 1-1 jafntefli og þar rann alvöru möguleiki okkar úr greipum að verða meistarar. Liðið átti ekki góðan dag. Mér var refsað og var sá eini sem tekinn var út úr byrjunarliðinu fyrir leik á heimavelli gegn KA í undanúrslitunum í bikarnum. Ég hlakkaði mikið til leiksins og það voru sár vonbrigði að sitja á bekknum. Við steinlágum 3-0. Ég kom inn á í síðari hálfleik en liðið var gersamlega andlaust. Ég byrjaði inn á gegn Grindavík í 17. umferð. Ég var þakklátur Loga fyrir það því það var síðasti heimaleikur minn fyrir FH. Leikið var á efri vellinum en aðalvöllurinn var í viðgerð. Það var rok og rigning en mér fannst það táknrænt að síðasti leikur minn var á þessum stað. Því þarna hóf ég feril minn á gamla malarvellinum. Ég fékk viðurkenningu frá stjórninni fyrir leikinn. Mjög fallegan platta. Við töpuðum leiknum og ég klúðraði víti. Það var hálfleiðinlegur endir en svona er boltinn. Við enduðum hins vegar á góðum sigri á Fylki í Árbænum í lokaleiknum. Ég kom inn á um miðjan síðari hálfleik. Ferlinum var lokið um 400 leikjum og 240 mörkum síðar fyrir FH. Þetta var ógleymanlegur tími sem veitti mér ómælda ánægju.
Eftirmáli
Þegar ég hafði lokið að skrifa tvo fyrstu hlutana og var að setja mig í stellingar að skrifa lokahlutann þá lést, langt fyrir aldur fram, Þórir Jónsson. Hann hafði gríðarleg áhrif á okkur alla. Ég tók þátt í að skrifa minningargrein um hann og það væri hægt að skrifa bók um þennan ótrúlega mann. Blessuð sé minning hans. Við sjáumst síðar.
Ég vil þakka öllum fyrir árin í FH og vona að einhvern tíma geti ég látið til mín taka utan vallar. Ég vil óska FH-liðinu góðs gengis á tímabilinu. Liðið er mjög vel mannað og til alls líklegt en við verðum að halda okkur á jörðinni. Fyrsti stóri titillinn er alltaf erfiðastur. Ég gekk í gegnum súrt og sætt með FH en það sem stendur upp úr eru félagarnir sem ég eignaðist. Auðvitað er alltaf söknuður að geta ekki lengur verið með í eldlínunni en svona er lífið. Allt tekur enda en minningarnar gleymast aldrei.
|