Fim 06.maí 2004
Hörður Magnússon rifjar upp ferilinn (annar hluti)
|
Mynd: Björn Jónsson |
Það varð hallarbylting hjá FH haustið 1987 þegar ný stjórn knattspyrnudeildar tók til starfa. Þórir Jónsson og Viðar Halldórsson tóku við rekstri deildarinnar ásamt fleiri góðum mönnum. Þetta var mikið framfaraspor fyrir fótboltann í FH. Þórir og Viðar komu með ferska vinda inn í starfið. Þeir höfðu spilað í efstu deild og vissu út á hvað leikurinn gekk. Viðar lék yfir 400 leiki með FH og átti fast sæti í landsliðinu.
|
Þórir Jónsson
|
Þeir voru mjög ólíkir og kannski þess vegna gekk samvinna þeirra eins vel og raun bar vitni. Þeir réðu tvo þjálfara árið 1988, Helga Ragnarsson og Ólaf Jóhannesson. Helgi var FH-ingur í húð og hár en Óli var Haukamaður að upplagi og sumir litu hann hornauga. Samvinna þeirra var með ágætum þó að ég hafi haft það á tilfinningunni að þeir væru ekki alltaf sammála um hvernig liðið ætti að vera. Við fengum einnig sterka leikmenn til liðs við okkur. Þórhallur Víkingsson kom frá Fram, Stóri Björn Jónsson kom frá Skallagrími og Ólafur Jóhannesson kom frá Val.
|
Viðar Halldórsson
|
Um vorið fórum við í góða æfingaferð til Kempervennen í Hollandi.Fótboltalega þá var ferðin svo sem ekkert sérstök og ekki hafði rignt jafnmikið í Hollandi í 127 ár! En auðvitað voru skemmtilegar uppákomur í ferðinni. Einn leikmaður á góðu skemmtikvöldi hljóp á milli landa (en við vorum nálægt landamærunum að Belgíu). Annar leikmaður fékk sér risastóran bjór fyrir framan Óla Jó tveimur tímum fyrir æfingu en Óli hafði sagt að mönnum væri frjálst að fá sér bjór - í hófi og á réttum tíma. Leikmaðurinn misskildi aðeins reglurnar og fékk bágt fyrir. Við bjuggum í sumarhúsum í Kempervennen og hópurinn kom alltaf saman á morgnana til að fara á æfingu. Einn morguninn var hópurinn á leið á æfingu þegar uppgötvast að einn leikmanninn vantaði. Enginn vissi hvar hann var en hópurinn hafði verið að skemmta sér kvöldið áður. Í þann mund rann leigubíll í hlað og, viti menn, leikmaðurinn steig úr leigubílnum og hitti okkur þar sem við vorum að fara á æfingu. Þessi leikmaður spilaði aldrei fyrir FH enda var hann alltaf með hælsæri.
|
Ólafur Jóhannesson |
Samkeppni í liðinu var hörð. Ég var framan af í byrjunarliðinu í vorleikjunum en sat á bekknum í tveimur síðustu æfingaleikjum fyrir mótið. Ingi Björn Albertsson var fenginn til liðs við félagið en vegna anna gat hann lítið verið með í undirbúningnum. Þegar Ingi Björn kom má segja að ég hafi gert mér grein fyrir hvar ég stóð, það átti að ganga framhjá mér enn eina ferðina. En það voru tveir menn sem höfðu trú mér, aðeins tveir - ég og Óli Jó. Ég hafði alltaf haft óbilandi trú á sjálfum mér en það voru ekki margir sem voru sama sinnis. Ólafur Jóhannesson var það hins vegar. Menn út í bæ vildu hafa réttu mennina í liðinu vegna ýmissa tengsla við þá. Svokölluð pabbapólítk hafði stundum þrifist hjá FH. Óli hefur hins vegar alltaf tekið sjálfstæðar ákvarðanir og það var honum að þakka að ég fékk tækifæri í byrjunarliðinu í fyrsta leik Íslandsmótsins árið 1988.
Ég skoraði tvö mörk í leiknum gegn Blikum í 3-1 útisigri. Pálmi Jónsson var með mér í framlínunni og við áttum eftir að vinna vel saman næstu árin. Við unnum fimm fyrstu leikina og það var einsýnt að við stefndum á fyrstu deild (efstu deild). Við vorum með 25 stig þegar mótið var hálfnað, gerðum aðeins eitt jafntefli. Þegar sex leikir voru eftir vorum við komnir upp. Við settum stigamet í deildinni, 44 stig, 14 sigrar, tvö jafntefli og tvö töp. Pálmi Jónsson var markahæsti maður deildarinnar og skoraði 16 mörk og var kosinn besti leikmaður ársins af leikmönnum. Ég skoraði 9 mörk í 16 leikjum, skoraði fjögur mörk í bikarnum og fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarir á lokahófi leikmanna. Þetta var hins vegar sigur liðsheildar. Halldór Halldórsson var besti markvörður sem staðið hafði í FH-markinu. Óli Jó, Björn Jónsson og Guðmundur Hilmarsson mynduðu sterka vörn. Á miðjunni voru Þórhallur Víkingsson, Magnús Pálsson, Kristján Hilmarsson og nafni hans Gíslason, Ólafur Kristjánsson og fleiri góðir menn. Jón Erling Ragnarsson spilaði einnig mikilvægt hlutverk og Janus Guðlaugsson og Jón Þór Brandsson komu við sögu. Vert er að nefna að skemmtilegt var að spila með Janusi en hann lék þó ekki nema fimm leiki með liðinu.
|
Aftari röð: Þórir Jónsson, Hilmar Arnórsson (liðsstjóri), Pálmi Jónsson, Halldór Halldórsson, Björn Jónsson, Sævar Bjarnason, Hörður Magnússon, Ólafur Kristjánsson, Jón Þór Brandsson, Ólafur Jóhannesson, Halldór Fannar (sjúkraþjálfari), Janus Guðlaugsson, Helgi Ragnarsson, Viðar Halldórsson
Fremri röð: Jón Örn Þorsteinsson, Hlynur Eiríksson, Leifur Garðarsson, Guðmundur Hilmarsson, Kristján Gíslason, Þórhallur Víkingsson, Kristján Hilmarsson, Magnús Pálsson
|
Árið 1989 er eitt það eftirminnilegasta í sögu FH. Ólafur Jóhannesson tók alfarið við þjálfun liðsins en Helgi Ragnarsson hætti störfum. Við fengum tvo leikmenn til FH sem reyndust mjög mikilvægir, Birgi Skúlason eitilharðan varnarmann frá Húsavík og Guðmund Val Sigurðsson Haukamann sem leikið hafði með Þórsurum og Blikum. Á þessum árum fór FH aldrei í hefðbundnar æfingaferðir til útlanda. Þórir Jónsson skipulagði ferð til Cayman-eyja í Karíbahafinu í marsmánuði 1989. En svo illa vildi til að bandaríska flugfélagið sem átti að flyja okkur frá New York til Flórída fór á hausinn skömmu fyrir ferðina. Nú voru góð ráð dýr og staðinn fyrir að hætta við ferðina þá var ákveðið að aka með Greyhound-rútu frá New York til Flórída. Ferðin tók sólarhring og var vægast sagt erfið en skemmtileg. Við flugum síðan frá Flórída til Cayman-eyja sem eru einkum þekktar fyrir að vera skattaparadís fyrir ríka einstaklinga. Ég var reyndar nálægt því að missa af vélinni, ég hafði gleymt mér eitthvað í fríhöfninni í Miami og heyrði ekki síðasta útkall. Allt FH-liðið leitaði að mér og menn urðu örvæntingarfullir. Þegar ég birtist í rólegheitunum þá tók Þórir Jónsson á móti mér hálfbrjálaður en síðan var bara hlegið að æsingnum.
Við bjuggum á fimm stjörnu hóteli á Cayman og ferðin var stórkostleg. Við lékum fjóra leiki í ferðinni gegn félagsliði og landsliði Cayman. Það gekk misjafnlega í miklum hita. Síðasti leikur ferðarinnar var gegn Cayman og við unnum 6-2 og ég skoraði tvö mörk. Eftir þann leik var ég nokkuð viss um að ég yrði í byrjunarliðinu og sú varð raunin. Það var margt til gamans gert í ferðinni, eftirminnileg kafbátaferð, skoðunarferð um eyjuna o.fl. Ég keypti mér skemmtilegan bol með súrefniskút framan á. Það var mikið grín gert að bolnum og menn komu til mín til að fá súrefni! Þórir Jónsson fór fremstur í flokki í gríninu og ég á þennan bol ennþá og mætti í honum fyrir nokkrum árum þegar Cayman-hópurinn hittist heima hjá Þóri J.
|
Hörður í baráttu við KR-inga í býflugubúningunum víðfrægu
|
Í lok apríl fórum við til Hollands og lékum æfingaleik gegn úrvalsdeildarliðinu Haarlem og gerðum 3-3 jafntefli sem var góður árangur gegn sterku liði. Íslandsmótið hófst með markalausu jafntefli á heimavelli gegn KA á frábærum æfingavelli í Krikanum. Við unnum Keflavík í næsta leik 2-1. Ég skoraði sigurmarkið á malarvellinum í Keflavík. Halldór Halldórsson varði vítaspyrnu undir lokin og var hetja liðsins. Síðan kom tap gegn Val á heimavelli en frábær sigur á Fram 2-0 kom næst. Þegar kom að lokaleik fyrri umferðar gegn Fylki þá vorum við með 12 stig í sjötta sæti. Ég var búinn að skora þrjú mörk í átta leikjum og vissi að ég yrði að gera betur. Jón Erling Ragnarsson beið á bekknum eftir tækifærinu og ég vissi að hann var orðinn óþolinmóður. Það var markalaust þegar við fengum vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Guðmundur Hilmarsson vítaskytta liðsins treysti sér ekki til að taka spyrnuna. Ég hljóp 30 metra til Óla Jó og bað um að fá að taka spyrnuna hann leyfði mér það og ég skoraði. Við lékum á alls oddi í síðari hálfleik og unnum 4-0, ég bætti við tveimur mörkum í síðari hálfleik. Þessi sigur var vítamínsprauta fyrir liðið, við vorum í þriðja sæti eftir fyrri umferðina tveimur stigum á eftir Val. Helsti keppinautur minn um framherjastöðuna, Jón Erling Ragnarsson fór í Fram í byrjun júlí. Jón átti eftir að standa sig vel þar en kom aftur í FH árið 1993 og þá lékum við saman í fremstu víglínu. Eftir frábæran útisigur á Val í 12. umferð vorum við komnir á beinu brautina. Guðmundur Valur Sigurðsson skoraði frábært sigurmark. Þetta var fyrsti sigur FH á Val á Hlíðarenda. Við töpuðum reyndar fyrir KR í 15. umferð en þá komu tveir sigurleikir í röð gegn ÍA 3-2 í Krikanum í hávaðaroki. Ég fiskaði mjög umdeilda vítaspyrnu undir lokin og skoraði. Við unnum Víking 3-0 í 17. umferð og vorum á toppnum með 32 stig, KA var í öðru sæti stigi á eftir. Við áttum heimaleik gegn Fylki í lokaleiknum, KA lék á útivelli gegn Keflavík.
|
Hörður skorar fyrra mark sitt gegn ÍA
|
Spennan síðustu daga fyrir leikinn var mikil. Með sigri var Íslandsmeistaratitilinn okkar. Ég gat ekkert æft vegna meiðsla í vikunni fyrir leikinn. Laugardagurinn 16. september 1989 rann upp. Það var mjög kalt í veðri og vindur. Gífurlegur fjöldi áhorfenda var á leiknum. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar var mætt og sérstakur pallur var smíðaður fyrir heiðursgesti. Þyrla sveimaði yfir Krikann með bikarinn. Ég man að leikurinn tafðist í upphafi leiks. Ég hljóp inn í búningsklefann og settist á ofn til að halda á mér hita! Ég var mjög slæmur í náranum en af þessum leik ætlaði ég ekki að missa af. Loks hófst leikurinn og Guðmundur Valur Sigurðsson skoraði mark úr aukaspyrnu eftir þriggja mínútna leik. Við vorum komnir með aðra hönd á bikarinn eða það héldum við. Fylkismenn jöfnuðu á 16. mínútu og allur vindur fór úr okkur. Fylkir sigraði 2-1 og KA lagði Keflavík 2-0. Við sátum eftir með sárt ennið í öðru sæti. Langbesti árangur FH var staðreynd en vonbrigðin að landa ekki titilinum voru mikil og nánast óbærileg. Það var auðvitað gaman fyrir mig að verða markakóngur deildarinnar með 12 mörk en það var ljóst fyrir leikinn gegn Fylki að ég yrði fyrsti markakóngur FH í efstu deild. Við tryggðum okkur sæti í Evrópukeppni. Árangur okkar var auðvitað frábær þegar við fórum að skoða hann eftir áfallið gegn Fylki. Við vorum nýliðar í deildinni og það voru engar stjörnur í liðinu aðeins menn sem voru tilbúnir að leggja eitthvað á sig.
Árið 1990 fengum við Andra Marteinsson og Hallstein Arnarson til liðs við FH. Leikmenn sem reyndust félaginu mjög vel. Við héldum okkar mannskap en urðum fyrir miklu áfalli þegar Ólafur Jóhannesson varð fyrir alvarlegum meiðslum og lék ekkert með liðinu á tímabilinu. Við fórum að þessu sinni í æfingaferð til Portúgals vorið 1990 og vorum á einhverri eyju. Sú ferð var ágæt þótt ekki kæmist hún með tærnar þar sem Cayman-ferðin hafði hælana. Við stóðum ekki undir væntingum sumarið 1990. Við unnum reyndar Litla bikarinn um vorið en liðið vantaði allan stöðugleika, vann og tapaði á víxl. Þetta var gott ár fyrir mig persónulega. Ég varð markakóngur annað árið í röð og skoraði 13 mörk.
Hugarfar og skilningur á leiknum voru bestu kostir mínir og á þessum árum var ég fljótur og beinskeyttur, sá markið og stefndi á það. Ég notaði einnig ákveðna sálfræði á sjálfan mig sem ég hef svo sem ekki mikið talað um, þ.e.a.s mér fannst ég alltaf þurfa að sanna mig annars myndi ég detta út úr liðinu í næsta leik. Ég leit líka á mótherja mína í hverjum leik sem svarna óvini mína og sérstaklega þá sem áttu að gæta mín í leiknum. Ég yfirfærði þetta hugarfar stundum á æfingar hjá FH-liðinu en það var kannski fullmikið af því góða. En ég þoldi ekki að tapa og beitti mörgum brögðum til að koma í veg fyrir það. Fyrir utan það æfði ég meira en flestir gerðu. Auðvitað fór ég stundum yfir strikið og ég held að sumir hafi misskilið mig en það er önnur saga. Það fer ógurlega í taugarnar á mér þegar verið að tala um að hinir og þessir séu "winnerar". Menn ættu ekki að halda, það þrátt fyrir að ég hafi ekki verið í Íslandsmeistaraliði þá hafi verið eitthvað "losera" element í mér og þessu FH-liði. Ég fékk tvívegis tilboð frá KR á þessum árum og hafnaði þeim í bæði skiptin. Ég ætlaði mér að vinna titla með FH. Titill með öðru félagi en FH skipti mig engu máli en því miður tókst það ekki. Ég hef aldrei séð eftir að hafa ekki farið annað á þessum árum, við vorum að skapa hefð í FH. Ég fór reyndar í Val 1997 og ég útskýri hvers vegna síðar.
|
Hörður í leik FH gegn Dundee
|
FH-liðið náði frábærum úrslitum gegn Dundee Utd. í Evrópukeppninni haustið 1990. Við töpuðum fyrsta leiknum 3-1 í Krikanum sem voru í raun fáránleg úrslit við fengum á okkur tvö mörk undir lokin í hræðilegu veðri, snjókomu, sól, roki og rigningu! Dundee Utd. var með hörkulið á þessum árum fjölmarga landsliðsmenn og við lékum í fyrstu umferð í UEFA-keppninni ekki einhverri forkeppni. Síðari leikurinn í Skotlandi vil ég meina að sé einn besti leikur FH fyrr og síðar. Við vorum 2-0 yfir í hálfleik og áttum möguleika á að auka við forskotið áður en þeir grísuðu inn marki og svo skoruðum við sjálfsmark undir lokin en 2-2 var samt meiri háttar. Það var allt annað en leiðinlegt að skora í þessum leik en Stjáni Gísla skoraði rosalegt mark og tók skemmtilegt flugvélafagn! Ég var mjög stoltur þegar leikmennirnir völdu mig besta leikmann liðsins þetta árið. Andi hópsins í Skotlandi var frábær og dæmigerður fyrir hópinn í heild sinni á þessum árum. Þórir Jónsson hafði þann hæfileika að búa til skemmtilega umgjörð fyrir utan völlinn, töluvert um gleðskap og eiginkonur og kærustur leikmanna fengu að vera með. Þetta var eins g samheldin fjölskylda.
Árið 1991 fórum við í stórskemmtilega keppnisferð til Jamaíku. Lékum fjóra leiki og ferðuðumst um alla eyjuna. Eitt hótelið sem við gistum á var æði skrautlegt það var í smíðum og ekkert var um rennandi vatn þannig að við þvoðum okkur í ískaldri sundlauginni. Uppbygging liðsins var svipuð og undanfarin ár en Stefán Arnarson var kominn í markið og stóð sig mjög vel. Okkur hinum gekk töluvert illa framan af en góður sprettur um mitt tímabil bjargaði okkur. Við töpuðum ekki í 8 leikjum í röð í deild og bikar. Ég lék eitt mitt besta tímabil þetta ár. Ég náði að verða markakóngur þriðja árið í röð og skoraði 13 mörk. Ég skoraði í öllum umferðum bikarsins 6 mörk alls og í úrslitaleiknum sjálfum gegn Val á Laugardalsvellinum. Það var hörkuleikur. Valsmenn náðu að komast yfir í síðari hálfleik en við jöfnuðum undir lokin og tryggðum framlengingu. Við vorum sterkari í henni en náðum ekki að skora. Í síðari leiknum lékum við mjög illa og áttum skilið að tapa 1-0. Enn og aftur höfnuðum við í öðru sæti. Tveir leikir fyrir utan úrslitaleikinn stóðu upp úr á tímabilinu. 2-0 heimasigur á KR þar sem ég náði að skora eitt mitt eftirminnilegasta mark og undanúrslitaleikurinn gegn Víði í Garði í bikarnum. Við komust aldrei almennilega í gang í þeim leik en ég náði að jafna á lokamínútunni eftir að tveir Víðismenn voru farnir útaf með rautt spjald. Við tryggðum okkur sigur með tveimur mörkum frá númer 9" í framlengingunni. Við töpuðum 8-1 já 8-1! fyrir Val í lokaleik Íslandsmótsins. Það var skelfileg tilfinning. Við höfnuðum í 8. sæti en áttum möguleika að vera um miðja deild fyrir leikinn. Þetta var síðasti leikur Óla Jó með liðið. Eftir fjögur ár fannst honum að nú væri nóg komið í bili. Óli er einn hreinskilnasti maður sem ég hef kynnst. Ákvarðanir hans voru ekki alltaf vinsælar eða réttar en hann reyndist mér frábærlega sem og liðinu í heild. Óli átti reyndar eftir að koma við sögu aftur hjá FH. Ég var tilnefndur íþróttamaður FH og Hafnarfjarðar þetta ár, árið 1991
Árið 1992 tók Njáll Eiðsson við þjálfun liðsins. Nýir leikmenn komu til félagsins, Daníel og Grétar Einarssynir, Þorsteinn Jónsson og Þorsteinn Halldórsson. Þetta var sterkur mannskapur en við náðum ekki að blanda okkur í baráttuna um titilinn. Njáll var í fyrsta skipti að þjálfa lið í efstu deild og það tók hann tíma að aðlagast aðstæðum. Hann lét okkur hlaupa mikið og það skilaði sér undir lok Íslandsmótsins en það var of seint. Við höfnuðum í sjötta sæti sem voru nokkur vonbrigði. Ég náði mér ekki á strik upp við markið og skoraði einungis 5 mörk í 17 leikjum í deildinni sem var það lélegasta í langan tíma. Guðmundur Hilmarsson og Pálmi Jónsson voru hættir hjá liðinu eftir langan tíma og voru góðir félagar. Ég saknaði þess að hafa Pálma mér við hlið þetta ár 1992. Njáll Eiðsson var ekki endurráðinn. Hann var ekki ánægður með það en ég tel nú að hann hafi verðskuldað annað tækifæri. En stjórnin tók þessa ákvörðun og þar við sat.
Hörður Hilmarsson var ráðinn þjálfari FH árið 1993. Ráðning hans kom ekki á óvart. Hann og Þórir voru miklir vinir og Hörður hafði náð ágætum árangri í þjálfun. Hörður setti saman besta FH-lið frá upphafi. Petr Mrazek kom frá Tékklandi en að megninu til voru þetta sömu leikmenn og árið á undan. Jón Erling var reyndar kominn aftur og Auðunn Helgason kom sterkur inn. Við fórum í æfingaferð til Hollands og það var meiri agi á mönnum en áður. Hörður Hilmarsson var og er ákaflega skipulagður maður og æfingarnar hjá honum voru mjög skemmtilegar en erfiðar. Hann fór nýjar leiðir en við höfðum kynnst áður og það skilaði sér til liðsins. Við lékum frábæran fótbolta þetta sumar. Það byrjaði reyndar illa með 5-0 tapi á heimavelli gegn ÍA og svo kom jafntefli gegn Víkingi í annarri umferð en eftir það héldu okkur engin bönd. Við rúlluðum yfir liðin hvert á fætur öðru. Hilmar Björnsson kom frá KR um mitt sumar og féll mjög vel inn í leik liðsins. Við áttum reyndar aldrei möguleika á Íslandsmeistaratitli. Skagamenn voru í sérflokki voru líklega með besta lið sögunnar. Þeir enduðu með 49 stig en við vorum í öðru sæti með 40 stig sem dugir yfirleitt til titils. Liðið í þriðja sæti var þrettán stigum á eftir okkur. Ég skoraði 13 mörk í 17 leikjum í deildinni en átti í miklum erfiðleikum með kálfameiðsli seinni hluta móts sem gerði það að verkum að ég æfði lítið en gat spilað leikina. Þessi meiðsli mín sem komu fyrst upp á yfirborðið gegn Val í sjöttu umferð áttu eftir að fylgja mér alla tíð síðan með hléum. Við skoruðum 39 mörk í 18 leikjum og fengum á okkur 21. Stefán Arnarson var frábær í markinu og vörnin var sterk með Auðun, Petr og félaga minn Ólaf Kristjánsson. Miðjan var vinnusöm með Hilmar Björnsson Þorsteinn J., Þorsteinn H., Þórhall Víkingsson og Hallsteinn Arnarson. Ég og Andri Marteinsson vorum frammi ásamt Jóni Erlingi Ragnarssyni af og til. Ég og Andri náðum virkilega vel saman og hann lék sitt besta tímabil þetta ár.
|
Af æfingu 1993. Hörður, Hilmar Erlendsson, Daníel Einarsson, Auðunn Helgason, Daði Lárusson og Leifur Garðarsson. Ljósmynd: Björn Jónsson |
Við héldum áfram á sömu braut árið 1994. Atli Einarsson, Drazen Podunavac og Jón Þórir Sveinsson voru nýir leikmenn. Andri Marteinsson fór til Lyn til en kom aftur til félagsins í júní. Við spiluðum varnarsinnaðri bolta þetta ár. Hörður þjálfari var hræddur um að liðið næði ekki að halda dampi eftir velgengni fyrra árs. Það var töluverður hringlandaháttur með liðið en við náðum samt sem áður að vinna leiki. Við vorum þremur stigum á eftir Skagamönnum eftir fyrri umferð. Mér hafði gengið illa að skora og var einungis búinn að skora eitt mark í átta fyrstu leikjunum. Ég var nú ekkert alltof sáttur við það og ég lenti upp á kant við þjálfarann. Við náðum að leysa það og síðari umferðin var frábær hjá liðinu. Við náðum reyndar aldrei Skagamönnum sem unnu mótið með 39 stigum. Við vorum í öðru sæti með 36 stig. Ég skoraði 10 mörk í 16 leikjum sem var ágætt miðað við stöðuna í fyrri umferðinni. Við lékum í Evrópukeppninni þetta haust við norðurírska félagið Linfield. Við lékum ágætlega í fyrri leiknum í Krikanum og unnum með mínu marki úr vítaspyrnu. Þetta var naumur sigur og dugði ekki til því við töpuðum 3-1 í Belfast. Við lékum illa og ég var slakur og mér fannst að ég hefði brugðist liðinu. Við vorum betri en þeir en náðum ekki að sýna það. Það var ljóst í lok tímabilsins að Hörður Hilmarsson ætlaði ekki að þjálfa liðið áfram. Það freistaði hans að fara í Val og þjálfa þar. Það var komin ákveðin þreyta í mannskapinn eftir tímabilið enda urðu miklar breytingar fyrir tímabilið árið 1995.
Ég ætla að láta staðar numið hér. Þriðji og síðasti pistill minn mun fjalla um árin 1995-2001.
|