Mið 05.maí 2004 Þessi frétt hefur verið skoðuð 237 sinnum.
Ólafur Þ. Harðarson
Ólafur Þ. Harðarson er FH-ingurinn
1) Af hverju FH?
Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar haustið 1960 og byrjaði í 9. ára bekk í Barnaskóla Hafnarfjarðar (við Lækinn) voru allir strákarnir í bekknum í FH nema einn (kollega minn, Frikki Jóns, var í Haukum, en vitkaðist síðar og lék lengi í markinu með FH). Ættin var líka höll undir FH: Hallsteinn og afi voru vinir, byggðu saman hús á Tjarnarbraut 11. Og móðurbróðir minn, Kristján Bersi var betri (skoraði meira) en Raggi Jóns (segir Raggi) þegar þeir voru í 3ja flokki í handboltanum – Bersinn hafði að vísu ofboðslega hlægilegan skot-stíl (segir Raggi). Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar 1960 bjó ég á Hvaleyrarbraut og þar voru allir í Haukum. Tryggvi bróðir gekk í Hauka. Ég lamdi hann í mánuð, þá skipti hann í FH. Hann er ennþá að þakka mér!
2) Segðu okkur frá fyrstu ferðinni á FH-leik sem þú manst eftir.
Það var á handboltaleik í Hálogalandi uppúr 1960, Fram-FH, sem slógust alltaf um titilinn á þessum árum. Fyrst var farið í Hafnarfjarðarstrætó til Reykjavíkur og síðan í innanbæjarstrætó í Hálogaland. Ég fékk að sitja uppí einhverri grind og sjá um markatöfluna (handhelda). Svindlaði ekki. Við unnum samt.
3) Segðu okkur frá eftirminnilegum leik.
Sá besti var leikurinn við Víking í Krikanum, sem endaði 4-3, en var 0-3 þegar fjórar mínútur (minnir mig) voru eftir. Smári Geirsson, Nobbara-leiðtogi, var með mér á leiknum, hann heldur með Þrótti Neskaupstað, Víkingi, Haukum og Crystal Palace. Hann stríddi mér í 89 mínútur þennan dag. Fór svo. Sá versti var fyrsti leikurinn sem FH spilaði í efstu deild, 7-1 á Skaganum, fyrir þá gulu. Sem betur fer vorum við með smá-skota í Akraborginni (fyrir og eftir leik).
4) Hver er uppáhaldsleikmaður þinn og hvers vegna? (Núna/í gegnum tíðina)
Uppháldsmaðurinn minn núna er Allan Borgvart, af því að hann er svo flinkur og skemmtilegur og leikur svo vel með skrokkinn á sér og boltann (einsog Geiri Hallsteins). Hann er betri en uppáhaldsmaðurinn minn á undan honum, Óli Dan. Óli sólaði alltaf að marklínu, en í vildi hafa markið flottara, sólaði aftur útfyrir markteig til að negla í vinkilinn... og missti boltann (alltaf). En Óli Sínu var samt lang-flottastur (fyrir utan Begga snúð í senternum og Ragga bróður hans í markinu).
5) Hvert er eftirminnilegasta markið sem skorað hefur verið í Krikanum?
Það var í handbolta ... spyrjiði Guðmund Petersen ... eða hvaða Haukamann sem er...
6) Hver hefur verið besta stundin sem FH aðdáandi? En sú versta?
Þær bestu eru titlar. Margar slíkar í handbolta og frjálsum. Ekki í fótboltanum ... en fer að koma ..... Sú versta er þegar leikmenn tolleruðu þjálfarann og við hin grétum af gleði yfir að hafa komist upp í efstu deild... og svo var einhver með útvarp! (Reyndar ein enn verri: 1989 var ég í Washington DC og alltaf í talsímanum til Hafnarfjarðar. Þurftum bara að vinna falllið Fylkis til að verða Íslandsmeistarar...æ! æ! æ!)
7) Hvaða leikmann viltu sjá í FH treyju? Og hvern viltu alls ekki sjá í FH treyju?
Helst: Ef ég huxa hégómlega og heiðarlega: sjálfan mig! Síst: Ef ég huxa um FH: sjálfan mig!
8) Hverjir eru verstu andstæðingar FH að þínu mati?
Mér er verst við Fram, það er arfur frá handboltanum uppúr 1960. Og núna björgum við þeim frá falli í fótboltanum ár eftir ár. Sú sex-stiga-gjafmildi kostaði okkur Íslandsmeistaratitil sumarið 2003! Seinni árin finnst mér hins vegar Skagamenn spila leiðinlegastan bolta, ruddabolta. (Bestu andstæðingar FH eru hinsvegar KR, sem eru í sauðalitunum eins og við. Spurning: Á hvaða velli hefur FH unnið flesta ósanngjarna sigra? Rétt svar: Í Kaplaskjóli).
9) Hverju myndir þú breyta hjá FH?
Kannski er kominn tími til að vinna titla í fleiru en frjálsum.
10) Hvernig myndir þú stilla upp liði ef þú gætir valið úr öllum leikmönnum FH fyrr og síðar?
Markvörður: Dr. Friðrik vinur minn Helgi Jónsson, þetta er klíka.
Hægri bakvörður (bakk): Óli H. frændi Kristjánsson, hann er besti fótboltamaður í minni ætt (við erum bara ekki betri!)
Vinstri bakvörður (bakk): Viddi Halldórs, ekki fyrir fæturna heldur kjaftinn (nema hvorutveggja sé). Ég held líka að Viddi muni taka öllum öðrum uppástungum illa (svo ekki sé talað um Jónsa...eða Gunnsu).
Miðframvörður: Dýri Guðmundsson, hann var með mér í bekk og söng í FH-bandinu.
Hægri framvörður: Albert Eymundsson, hann var með mér í bekk löngu síðar og við umgengumst glaðasta þjálfara FH, Pat Quinn.
Vinstri framvörður: Logi Ólafsson (sá fagri), það má lengi hugga sig við að eiga þann leikmanninn sem fegurstur er á velli og glaðastur eftir leik.
Vinstri innherji (wing): Árni Ágústar (sá hann aldrei spila, en trúi sögunum hans... )
Hægri innherji (wing): Helgi Ragg, hann trúði á mig sem markmann...
Miðframherji (senter): Albert Guðmundsson, hvíta perlan, langbestur Íslendinga fyrr og síðar í fótbolta... (en kannski ekki í fjármálaráðuneytinu).
Vinstri útherji (kantmaður): Alan Borgvart, vegna skemmtigildis og skilvirkni.
Hægri útherji (kantmaður): Óli Dan, vegna skemmtigildis.
Varamaður (það var bara einn leyfður): Guðmundur Árni Stefánsson, honum finnst svo gaman að vera á bekknum...
11) Hvaða liði heldur þú með úti í hinum stóra heimi?
Ég hef haldið með Manchester United síðan 1960. Allir í bekknum héldu með einhverju ensku liði. Ég fann mér lið með því að lesa um úrslit í Tímanum. Held að mér hafi þótt nafnið langt og flott (og valdi ekki Wolwerhampton Wanderers afþví að -alf kallaði þá alltaf Wolves). Margir hafa horn í síðu United hin síðari ár af því að þeir eru svo góðir og ríkir. Ég studdi þá hins vegar aldrei harðar en á mögru árunum frá 1968 til ca. 1990. Hélt t.d. uppá Stapleton! En George Best var langbestur – fyrr og síðar.
12) Hvar sérðu FH fyrir þér eftir 10 ár?
Á toppnum ... og mig og hina ellilífeyrisþegana í nýju skota-stúkunni sem verður hönnuð í Krikanum eftir hugmyndum Árna Ágústar: þar situr maður inni í hægindastól og getur ýmist horft inní handboltasalinn eða útá fótboltavöllinn eða framan í sessunautinn (eftir því hvað er í gangi og hvernig gengur... )
|
|
<< Eldri frétt Nýrri frétt >>
|
|
Staðan |
Sæti |
Félag |
Stig |
1. |
FH |
36 |
2. |
KR |
30 |
3. |
Valur |
29 |
4. |
Keflavík |
24 |
5. |
Breiðablik |
23 |
6. |
ÍA |
22 |
7. |
Víkingur |
21 |
8. |
Fylkir |
21 |
9. |
Grindavík |
19 |
10. |
ÍBV |
15 |
|
Markahæstir |
Tryggvi |
8 |
Atli Viðar |
4 |
Allan Dyring |
4 |
|
Síðustu leikir |
|
Síðasti leikur |
|
Næsti leikur |
FH - KF Nörd
|
4. okt. |
?:?
|
Laugardalsvöllur |
|
|
|