Mán 03.maí 2004
FH sumar 2004?
Þegar grasið fór að grænka og grundirnar að gróa kom upp gamli fiðringurinn, fiðringur sem maður beið eftir allan veturinn hér áður fyrr. Fiðringurinn sem var merki þess að keppnistímabilið væri að fara að hefjast. Skórnir voru pússaðir og legghlífarnar settar ofan í tösku (notaði aldrei legghlífar á veturna). Spenna var í loftinu, yrði þetta árið sem allt myndi smella og svo frv.
Í dag er þetta öðruvísi, bein afskipti mín af boltanum sem leikmaður eða þjálfari eru liðin tíð, nú fylgist ég bara með undirbúningi FH liðsins úr fjarlægð. Fór reyndar á eina æfingu í janúar með strákunum, hún endaði með skelfilegu fótbroti og síðan þá hef ég bara verið að berjast fyrir því að geta gengið eðlilega og er það nú að takast, enda mikilvægt þar sem golfvertíðin er að byrja.
Vissulega hef ég saknað þess á köflum að vera ekki í eldlínunni, t.d. í bikarúrslitaleiknum í fyrra, en heilt yfir hef ég verið merkilega laus við söknuð í þessum efnum. Tíminn sem maður hefur núna fyrir aðra hluti er góður og fyrir mig bara ágæt skipti. Í gærkvöldi fann ég hins vegar þennan gamla fiðring, mikið svakalega langaði mig til að vera leikmaður á nýjan leik. Ástæðan einföld, frábær leikur okkar manna í deildarbikarnum gegn ÍA, góður og sannfærandi sigur, gamla góða bjartsýnin og spennan í kringum liðið í upphafi sumars eins og hún gerist best. Fékk svona svipaða tilfinningu fyrir FH liðinu og var vorið 1994. Miklar væntingar, sterkur leikmannahópur og mér finnst eins og menn hafi trú á því að hægt sé að ná árangri í sumar. Í raun eru andstæðurnar frá því í fyrra svo öfgakenndar að efasemdarmaðurinn í mér er pínulítið smeykur við allar þær væntingar og þá spádóma sem munu hellast yfir okkur á næstu vikum fram að byrjun móts. Ég ætla samt að bæla í mér efasemdarmanninn svona einu sinni og reyna að færa rök fyrir því af hverju ég tel að sumarið í sumar gæti orðið FH sumar.
Í fyrra gátum við ekkert á vormánuðum og flestir töldu falldrauginn verða sveimandi yfir Krikanum allt sumarið. Síðan gerðist það að við fengum tvo Dani og Sverri Garðarsson rétt fyrir mót og þá var búið að bæta liðið svo verulega að allt tók óvænta stefnu. Lykilmenn liðsins bitu í skjaldarrendur og úr varð mjög skemmtilegt sumar sem er okkur öllum í fersku minni. Þessi árangur í fyrra varð til þess að allt starfið í félaginu fór á flug, umgjörðin og leikmannahópurinn sjálfur hefur verið mun sterkari í vetur en í fyrravetur, allir leikmenn haldið áfram í félaginu og við hafa bæst Ármann Smári og Simon hinn danski þó vissulega hafi meiðsli Hermanns verið áfall. Ofan á nýja leikmenn hefur komið að Heimir Guðmundsson og Emil Hallfreðsson eru núna orðnir sterkir kandidatar um stöðu í liðinu sem og Víðir Leifsson sem virðist vaxa með hverjum leik. Ég sagði það í fyrra að árið í ár ætti að verða árið hans Emma og vonandi stendur hann undir því, ég hélt jafnframt að Heimir myndi varla verða byrjunarmaður í ár en eftir leikinn í gær verð ég að éta það ofan í mig, og geri ég það með bestu lyst. Heimir er enn eitt dæmið um hversu langt er hægt að ná ef menn hafa viljann að vopni. Hugarfar hans er til hreinnar fyrirmyndar og ljóst að hann hefur skotið sér flinkari leikmönnum ref fyrir rass í baráttunni um sæti í liðinu. Ég þjálfaði Heimi í mörg ár og varð vitni að því þegar hann breyttist úr þokkalegum yngri flokka spilara í efnilegan leikmann nánst á einni nóttu. Þetta var á Dana Cup 1999 og Heimir þá á yngra ári í 3. flokki. Eftir það hafa framfarirnar verið stórstígar og í fyrra var hann kjölfesta og fyrirliði í 2. flokki sem rúllaði upp Íslandsmótinu. Ég hef lítið séð til hans í vetur en í gær var mér ljóst að hann er á góðri leið með að verða alvöruleikmaður. Ég veit af eigin reynslu að Heimir mun halda sér á jörðinni og halda áfram að taka framförum, á því leikur engin vafi í mínum huga. Hann er einfaldlega of skynsamur til að klúðra hlutunum úr þessu.
Ofan á góðan leikmannahóp bætast góðir þjálfarar og góð umgjörð í kringum liðið þar sem allir leggjast á eitt að gera veg félagsins sem mestan og bestan. Verkefni sumarsins eru líka mikil, strax um næstu helgi er úrslitaleikur í Deildarbikar og svo tekur við Íslandsmót, bikarkeppni og svo UEFA keppnin sem er alltaf tilhlökkunarefni. Það veitir því ekki af stórum hóp manna sem geta spilað og höfum við sennilega aldrei haft jafn öflugan leikmannahóp og í sumar. Ég tel að verkefni þjálfaranna verði erfitt því það er aldrei auðvelt að vera með stóran leikmannahóp, í raun eitthvað sem má kalla jákvætt vandamál. Jafnframt reynir á þjálfaranna meira en í fyrra þar sem miklar væntingar eru gerðar og þó hópurinn sé stór geta bara 11 byrjað inn á eftir sem áður. Þá kemur alltaf upp einhver óánægja leikmanna og held ég að þar verði áskorun þjálfaranna mest. Það er hægt að bregðast við slíkum aðstæðum á marga vegu. Alex Ferguson sagði eitt sinn að hann hefði unnið allt í fótbolta en aldrei náð þeirri list að halda þeim leikmönnum sem ekki komast í liðið ánægðum. Hann bætti við að hann hefði engan sérstakan áhuga á því heldur. Það er fínt að leikmenn sætti sig ekki við að komast í liðið, en það er bara einn vettvangur til að vinna sér sæti og það er að sýna sig og sanna á æfingum og í þeim leikjum sem þeir fá að spila. Mikilvægt er að Óli og Leifur falli ekki í þá gryju að reyna að halda öllum ánægðum enda er það ekki hægt. Ekki að fara að færa til leikmenn úr sínum stöðum til að koma öðrum hugsanlegum þungavigtarmönnum í liðið á kostnað manna sem myndu nýtast liðinu betur hverju sinni. Ég hef fulla trú á því að Óli og Leifur standist þessa pressu enda báðir eldri en tvævetur.
Hugum þá að leikmannahópnum. Við erum vel settir á öllum stöðum á vellinum. Okkur vantar reyndar markmann til að halda Daða við efnið, en ef hann helst heill í sumar þá erum við með góðan markmann.
Vörnin er sterk, Tommy og Sverrir lykilmenn, Freyr, Ármann Smári og jafnvel Ásgeir og Maggi geta spilað líka í miðri vörninni ef upp koma meiðsli eða leikbönn. Báðar bakvarðarstöðurnar hafa verið lausar í reipunum í vetur. Freyr hefur ekki náð sér á strik og Maggi hefur átt í miklu basli. Heimir og Víðir voru bakverðir í gær og ég er ekki frá því að þeir séu bestu kostirnir í þessar stöður í dag. Við höfum líka Frey og Magga að sjálfsögðu svo þessar stöður ættum við að leysa. Má líka nefna Gumma Sævars sem getur orðið spilað hvar sem er að því er virðist. Þá er Birgir Jóhannsson ungur leikmaður sem gæti spilað í vörninni, á þó síður von á að hann fái mikla möguleika í sumar. Eitt vona ég að menn falli ekki í og það er að láta Ásgeir spila bakvörð. Ég hef sagt það áður og segi það enn að Ásgeir er að mínu viti best til þess fallinn að spila með gamla manninum á miðjunni og vona ég að fjölhæfni Ásgeirs verði ekki notuð til að koma honum fyrir annars staðar en þar sem ég tel að hann sé bestur, á miðjunni.
Gamli er fyrsti kostur á miðjuna og með honum þá Ásgeir. Þar fyrir utan er Baldur Bett og jafnvel Heimir Guðmunds. Grani og Simon geta báðir leikið fremst á miðjunni og út á vængjunum eru Jón Þorgrímur, Emil Hallfreðs, Atli Viðar og jafnvel Simon og Gummi Sævars. Nóg af mönnum þar og ljóst að mikil samkeppni verður um þær tvær stöður. Fremst geta svo Allan, Ármann Smári, Atli Viðar, Sigmundur og Grani allir spilað.
Af þessu má sjá að einhverjir mjög góðir leikmenn verða ekki í byrjunarliðinu í hverjum leik. Slíkt virkar hvetjandi á suma en letjandi á aðra. Það er hins vegar svo að ætli menn sér að ná árangri þá getur enginn ætlast til að verða áskrifandi af stöðu í liðinu. Menn verða að vinna sér það inn og þar verður verkefni þjálfaranna ærið í sumar að fá það besta út úr leikmönnum. Verkefnin eru eins og fyrr segir fjölmörg og ljóst að við spilum á 15-17 leikmönnum í sumar. Því ættu allir að fá tækifæri til að sýna sig og sanna.
Í mínum huga eru nokkrir algjörir lykilmenn í liðinu sem verða að eiga gott sumar til að dæmið gangi upp. Þeir eru Daði í markinu, Tommy og Sverrir í vörninni, Gamli og Ásgeir á miðjunni og Allan frammi. Hverjir fylla aðrar stöður verður að koma í ljós og að mörgu leyti erfitt að spá um slíkt á þessum tímapunkti.
Fiðringurinn er orðinn mikill hjá mér, ég get varla beðið eftir fyrsta leik. Ég held að við hljótum að stefna á að vera í fremstu röð í deild og bikar og reyna að komast alla vega í gegnum fyrstu umferð í forkeppni UEFA. Hægt er að gera kröfu um árangur, af fyrrgreindum ástæðum og það er alveg ljóst að mínu viti að það á að gera kröfu um árangur. Menn ná aldrei langt ef þær ætla sér það ekki og miðað við styrk annarra liða þá sé ég ekki að neitt lið í Landsbankadeildinni sé betur mannað en við. Fylkir, ÍA og KR hafa svipað sterka leikmannahópa og tel ég að baráttan um titilinn eigi að vera milli þessarra fjögurra liða. Til að árangur náist þarf allt að smella saman og það er auðveldara um að tala en í að komast. Við sem stöndum fyrir utan verðum að vera dugleg að mæta á völlinn og styðja strákanna okkar. Ég hef góða tilfinningu fyrir sumrinu, hver veit nema sumarið 2004 verði FH sumar.
Lúðvík Arnarson
|
|
<< Eldri frétt Nýrri frétt >>
|
|
Staðan |
Sæti |
Félag |
Stig |
1. |
FH |
48 |
2. |
Valur |
32 |
3. |
ÍA |
32 |
4. |
Keflavík |
27 |
5. |
Fylkir |
26 |
6. |
KR |
25 |
7. |
Grindavík |
18 |
8. |
ÍBV |
17 |
9. |
Fram |
17 |
10. |
Þróttur |
16 |
|
Markahæstir |
Tryggvi |
16 |
Allan |
13 |
Auðun |
5 |
|
Síðustu leikir |
|
Síðasti leikur |
|
Næsti leikur |
Tímabilið búið í bili
|
2006 |
14:00
|
Kaplakriki |
|
|
|