Lau 01.maí 2004
Hörður Magnússon rifjar upp ferillinn
Það hefur blundað í mér í nokkurn tíma að setja niður á blað feril minn hjá FH. Frásögn mín mun þó aldrei verða tæmandi nema ef vera skyldi að ég ritaði ævisögumína en það fær að bíða betri tíma.
Ég fæddist á Landsspítalanum þann 19.febrúar 1966 og byrjaði mjög snemma að sparka í bolta. Fyrstu skipulögðu æfingarnar með FH hófust þegar ég var 6 ára og þá í sjötta flokki. Mig minnir að fyrsti þjálfari minn hafi verið Sigurður Sverrisson, Liverpool aðdáandi með meiru. Ég byrjaði í vörninni og lék þar fyrstu árin. Ólafur Danivalsson þjálfaði mig þegar ég var 9 ára og hann átti í miklum erfiðleikum með að mæta á réttum tíma. Við strákarnir ákváðum að gefa honum vekjaraklukku en það hafði engin áhrif. Samt sem áður var Óli Dan uppáhaldsleikmaður minn í FH lengi vel. Knatttækni hans var með ólíkindum og ég fór á völlinn bara til að sjá hann spila.
Árið 1978 var ég í fimmta flokki og þjálfari minn var Guðmundur Hilmarsson. Þetta var feikilega öflugur flokkur. Ég var þá kominn á minn stað í liðinu, í framlínuna. Við töpuðum ekki leik allt tímabilið. Við komust í úrslitakeppnina sem haldin var í Vestmannaeyjum. Þar lentum við í þriðja sæti og vorum óheppnir að spila ekki til úrslita um titilinn en eins og svo oft áður þá vantaði herslumuninn að landa titli. Þetta var nokkuð einkennandi fyrir minn feril en ég kem nánar að því síðar. Unglingsárin liðu og ég var einnig í handbolta en hætti árið 1982 og einbeitti mér að fótboltanum. Margir ágætir þjálfarar komu við sögu hjá mér í yngri flokkunum þeir Daníel Pétursson, Jón Þór Brandsson, Garðar Guðmundsson, Helgi Ragnarsson og síðast en ekki síst Leifur Helgason.
Leifur þjálfaði mig í 2. flokki árið 1983 og við vorum í b-riðli. Leifur er ákaflega athyglisverður og skemmtilegur persónuleiki og það gekk á ýmsu. Við náðum ekkert sérstökum árangri en unnum þó 5 leiki og töpuðum 3. Ég náði að skora 10 mörk í 8 leikjum. Einn leikur er mér ofarlega í minni og það var leikur gegn ÍR sem við töpuðum 2-0. Í raun var sökin mín. Ég lenti í útistöðum við leikmann ÍR og var rekinn út af. Leifur varð gersamlega brjálaður og hellti sér yfir mig og ég var í sannleika sagt hálf hræddur við hann. Hann sagði að það væri réttast að reka mig úr FH ég væri einfaldlega ekki húsum hæfur. Eftir leikinn sljákkaði nú aðeins í honum og við skildum sáttir.
Janus Guðlaugsson hafði þjálfað meistaraflokk FH þetta sumar en hætti þjálfun liðsins á miðju tímabili og Albert Eymundsson og Leifur Helgason tóku við. FH var í annarri eða næstefstu deild. Við þessi skipti þá fór ég að æfa með meistaraflokki. Ég fékk fyrsta tækifæri mitt með meistaraflokki á Vopnafirði af öllum stöðum. Ég kom inn á sem varamaður gegn Einherja þegar fimm mínútur voru eftir. Í næsta leik gegn Fylki kom ég inn á og síðan gegn Fram í lokaleiknum. Velgengni Fram var að hefjast og þeir unnu 4-1. Ég náði að skora mitt fyrsta mark í þessum leik.
Ingi Björn Albertsson tók við FH liðinu árið 1984. Stefnan var sett á sæti í fyrstu deildinni. Ég æfði eingöngu með meistaraflokki og spilaði einnig með 2. flokki. Þetta var ákaflega skemmtilegt ár. FH vann deildina með miklum yfirburðum. Ingi Björn var spilandi þjálfari og raðaði inn mörkum. Þetta var ungt lið með reyndum jöxlum inn á milli. Þarna voru t.d. Dýri Guðmundsson, Óli Dan, Viðar Halldórsson fyrirliði, Guðmundur Hilmarsson, Halldór Halldórsson, Pálmi Jónsson og Jón Erling Ragnarsson svo einhverjir séu nefndir. Ég kom inn á í flestum leikjanna og náði að skora 2 mörk, sigurmark gegn Njarðvík í skrautlegum leik þar sem Jón Erling Ragnarsson rotaði markvörð Njarðvíkinga, Örn Bjarnason, Haukamann og núverandi dómara. Ég byrjaði inn á í lokaleiknum gegn Völsungi, skoraði mark og fékk víti sem Guðmundur Hilmarsson skoraði úr.
Árið 1985 lék FH aftur í efstu deild eftir nokkra fjarveru. Ingi Björn var enn þjálfari og aðstoðarmaður hans var Logi Ólafsson sá skemmtilegi fugl. Ingi Björn var harður húsbóndi og undirbúningstímabilin hjá honum voru skrautleg. Mikið um langhlaup og æfingarnar hjá honum gátu tekið 3 klukkutíma! Liðið var mjög ungt en Viddi, Óli Dan og Dýri voru enn að spila. Pálmi Jónsson var ekki með og ég fékk í fyrsta skipti alvöru tækifæri í byrjunarliðinu. Ingi Björn og Jón Erling voru þó sóknarpar nr.1. Fyrsta mark mitt í efstu deild var á útivelli gegn Keflavík. Við unnum 3-1 og ég skoraði fyrsta mark leiksins. Það bar þó helst til tíðinda að Magnús Pálsson skoraði og það var fágæt sjón. Markið var reyndar býsna skrautlegt. Laust skot sem fór undir Óla Gott í markinu. Eftirminnilegasti leikurinn á tímabilinu var gegn Víkingi á Kaplakrikavelli. Víkingur komst í 3-0 en við náðum að skora fjögur mörk á síðustu 27.mínútunum. Sigurmarkið kom eftir langt innkast Viðars Halldórssonar og ég náði að koma boltanum í netið. Það var mikil gleði eftir leikinn. Viddi og Gunna, kona hans, buðu heim eftir leikinn í kaffi og kökur á Álfaskeiðinu! Við lentum í sjöunda sæti sem var viðunandi árangur fyrir nýliða. Ég spilaði 14 deildar og bikarleiki og skoraði fimm mörk.
Árið 1986 var að mörgu leyti mjög svipað og árið á undan.Ingi Björn var enn spilandi þjálfari. Um vorið fórum við í ákaflega skemmtilega keppnisferð til Lokeren í Belgíu. Það gerðist margt skemmtilegt í ferðinni. Mér tókst t.d. að eyða öllum gjaldeyrinum fyrsta daginn þegar liðið fór í verslunarferð. Ég held að ég hafi eytt um 40.000 krónum í allskonar bull ég var síðan upp á náð og miskunn Benedikts Steingrímssonar stjórnarmanns og fararstjóra ferðarinnar. Við bjuggum á krá meðan á dvöl okkar stóð og það gekk mikið á. Rúmin voru ekki upp á það allra besta og sumir kvörtuðu sáran. Það var auðvitað mikil gleði og galsi í hópnum enda mikið af ungum frískum mönnum. Síðasta kvöldið fékk einhver þá flugu í höfuðið að míga þar sem hann stóð en hann var þá staddur í stiga á kránni! Þórir Jónsson sem þá var í stjórn og Hörður Hilmarsson aðstoðarþjálfari Inga Björns léku mig grátt á flugvellinum þegar við áttum að fara heim. Allir leikmenn fengu flugmiðann sinn nema ég. Ég spurði Þóri hvar miðinn minn væri og þá
sagði hann að ég væri búinn að fá hann í hendur. Ég trúði dýrinu, var í öngum mínum og taldi mig hafa týnt miðanum. Þórir sagði að vélin væri full en það væri möguleiki fyrir mig að sitja á gólfinu í flugvélinni ef hann fengi leyfi. Ég kokgleypti söguna og settist á helvítis gólfið en rétt áður en vélin fór í loftið þá fékk ég miðann og settist í sætið mitt. Ég hafði verið gabbaður og fékk að heyra þessa sögu næstu árin enda miklir sögumenn í FH.
Sumarið 1986 var svipað og ´85. Við lentum reyndar í fallbaráttu en náðum að bjarga okkur í lokaleiknum. Við höfnuðum í 8.sæti og ég skoraði 4 mörk. Þar af eftirminnilega þrennu gegn ÍBV í Kaplakrika. Ég hafði þó enn ekki fast sæti í byrjunarliðinu en var þolinmóður og beið færis. Ingi Björn hætti með liðið eftir tímabilið ´86.
Árið 1987 réð FH, Skotann, Ian Flemming, til starfa sem spilandi þjálfara. Flemming var kostulegur karakter og ég vann með honum í byggingarvinnu hjá Benna Steingríms allt sumarið en það hjálpaði mér lítið til þess að komast í liðið!!! Flemming var harður nagli og góður fótboltamaður. Hann lék á sínum tíma hjá Aberdeen með Steve Archibald í framlínunni. Æfingar Flemmings voru oft á tíðum kostulegar. Hann lét okkur hlaupa í snjósköflum allt undirbúningstímabilið á malarvellinum í Krikanum. Ég er nú hræddur um að menn létu ekki bjóða sér það í dag en það er önnur saga. Flemming hafði ekki mikla trú á mér sem knattspyrnumanni og gerði nú stundum hreinlega grín að mér. Hann talaði um að ég væri með "elephant touch". Þetta tímabil var ömurlegt og við féllum úr deildinni. Ég fékk lítið að spila og var stundum ekki í hópnum. Það var í fyrsta skipti sem ég íhugaði að hætta í FH og í raun hætti ég í viku en byrjaði aftur. Ég skoraði 1 mark gegn Völsungi í 3-3 jafntefli þar sem við misstum niður 3 marka forskot sem varð til þess að við féllum á endanum.
Ég ætla að láta staðar numið við árið 1987. Það sem gerðist næst átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á fótboltann í FH. Þórir Jónsson og Viðar Halldórsson tóku við rekstri deildarinnar og Ólafur Jóhannesson ásamt Helga Ragnarssyni tóku við þjálfun liðsins. Óli spilaði einnig með liðinu og hann átti eftir að hafa mikil áhrif á mig sem leikmann því þá fékk ég loksins alvöru tækifæri í byrjunarliðinu, 22 ára gamall.
Myndir
FH liðið árið 1985
Hörður skorar eitt af þremur mörkum sínum í leik gegn ÍBV í júní 1986. Leikurinn fór 4:1
|