Þri 09.mar 2004 Þessi frétt hefur verið skoðuð 250 sinnum.
Dýri Guðmundsson
Dýri Guðmundsson segir frá veru sinni í FH
Mér er það heiður að vera beðinn um að skrifa í skóhilluna. Ég veit ekki hvort ég á það skilið, þar sem ég lék fleiri meistaraflokksleiki með öðru félagi en FH. En ég hef mér það ef til vill til málsbóta að ég átti aldrei heima í Hafnarfirði meðan á ég lék með meistaraflokki Samt tel ég mig vera Gaflara. En ég byrjaði að leika með meistaraflokki FH 1968. Hafði flutt til Reykjavíkur 1966, 15 ára gamall. Á þeim árum vorum við í 2. deild og samanstóð leikmannahópurinn af eldri leikmönnnum, handboltaköppum í sumarsporti, og okkur ungu strákunum. Þetta var eiginlega nokkuð skrautleg blanda. Í kringum 1970 fór meistaraflokkurinn að mótast um yngri spilarana sem var kjarni sem Árni Ágústar og Bergþór Jónsson höfðu að mestu leyti mótað. Arið 1972 fengum við erlendan þjálfara Duncan McDowell að nafni, sem kom okkur i frábært form, en það árið töpuðum við ekki leik í deild, en gerðum 5 jafntefli, og komumst í úrslit í bikar. Árið eftir slaknaði heldur á árangrinum. Árið 1974 fór liðið svo upp í efstu deild undir stjórn annars Skota. Hafði ég skipt um félag þann vetur þannig að missti af því.
Næstu 10 ár spilaði ég með Reykjavíkurfélaginu Val, og oft á tíðum að sjálfsögðu á móti FH. Er mér ýmislegt minnisstætt frá þeim viðureignum eins og þegar Viðar skoraði með "diving header" eins og hann kallaði það, á Melavelli, og eins þegar Óli Dan saltaði mig 1977 í leik í Krikanum. Valur varð þess heiðurs aðnjótandi að leika opnunarleik Grasvallarins í Krikanum 1977 og eftir að það var haldin mikil veisla sem gaman var að fá að taka þátt í.
Árið 1984 tók ég til við að spila aftur með Fimleikafélaginu, og lék með því í 2 síðustu ár míns ferils. Voru það afar skemmtileg ár. Ingi Björn Albertsson þjálfaði og lék með liðinu. Var síðasti leikurinn minn móti Þór á Akureyri á afmælisdaginn minn 14 september 1985. "Og þá er mál að linni, sagði Sigurlinni," eins og gamli frasinn segir.
Staða FH í fótbolta er vænleg í dag. Sá kjarni manna sem hefur staðið að baki því starfi á allan heiður skilinn. Hafnarfjörður hefur burði til að halda úti fótboltaliði í fremstu röð. Bæjarbúar þurfa að fylkja sér betur um liðið í Krikanum. Liðið hefur leikið afar skemmtilegan og árangursríkan fótbolta undanfarin ár. Leikmenn sem hafa komið frá öðrum liðum til FH bera félaginu vel söguna. Ég óska FH alls hins besta í framtíðinni.
Myndir
|
Dýri og George Best fyrir vináttuleik Vals og Manchester United á Laugardalsvelli árið 1982 (úr einkasafni) |
|
Dýri í baráttu við Óla Dan í Krikanum 1977 (úr safni Dýra) |
|
Efri röð: Helgi Flóvent Ragnarsson, Gunnar Bjarnason, Pétur Stephensen, Hörður Sigmarsson, Dýri Guðmundsson, Jón Vídalín Hinriksson, Logi Ólafsson, Janus Guðlaugsson, Pálmi Sveinbjörnsson, Duncan McDowell.
Neðri röð: Ólafur Danivalsson, Leifur Helgason, Daníel Pétursson, Ómar Karlsson, Friðrik Jónsson, Magnús Brynjólfsson, Viðar Halldórsson, Ásgeir Arinbjörnsson, Halldór Fannar. (úr safni Dýra)
|
|
Efri röð: Viðar Halldórsson, Ásgeir Arinbjörnsson, Magnús Brynjólfsson, Ólafur Danivalsson, Leifur Helgason, Helgi Ragnarsson, Janus Guðlaugsson, Halldór Fannar (þjálfari).
Neðri röð: Pálmi Sveinbjörnsson, Ómar Karlsson, Friðrik Jónsson, Logi Ólafsson, Dýri Guðmundsson, Jón Hinriksson, Gunnar Bjarnason. (Mynd úr Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972)
|
|