Fös 22.ágú 2003 Þessi frétt hefur verið skoðuð 106 sinnum.
Viðtal við Leif Garðarsson
Við náðum í skottið á hinum önnum kafna Leifi Garðarssyni og lögðum fyrir hann nokkrar spurningar. Sjáðu hvers vegna hann heldur með Everton, hvað honum finnst um KR og Fylki og hvernig rafmagnslaus sjúkrabíll fléttast inn í ferilinn.
|
Leifur um 1993 |
Fjölskylduhagir?
Ég er giftur Ástu Lilju Baldursdóttur sem á fjölda leikja með mfl. FH, Sindra og Þórs frá Akureyri og saman eigum við Garðar Inga 12 ára (5. flokki FH), Anton Inga 8 ára (7. flokki FH) og Elsu Rut 4 ára (með öflugan vinstri fót).
Menntun?
Ég útskrifaðist með B.Ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands árið 1992 og er að ljúka Dipl.Ed. prófi í skólastjórnun frá sama skóla nú í október. Hvað knattspyrnuna varðar þá hef ég lokið við öll þjálfarastig KSÍ. Þá er ég einnig alþjóðlegur FIBA dómari í körfuknattleik og hef dæmt um 1000 leiki sem slíkur auk yfir 100 alþjóðlegra leikja.
Starf?
Í nóvember sl. tók ég við starfi skólastjóra Áslandsskóla í Hafnarfirði.
|
Úr FH fréttum 1987
|
Hverjar voru þínar fyrirmyndir í knattspyrnu í æsku?
Þegar maður var yngri var Ásgeir Sigurvinsson mikil hetja hjá Standard Liege og síðar Bayern og Stuttgart. Viðar Halldórsson var aðal landsliðshetja FH-inga í þá daga og fékk stóra plúsa fyrir það ásamt Inga Birni Albertssyni sem skoraði eftirminnilegt mark gegn N-Írum í Laugardalnum. Gaman að því að síðar náði ég að leika með báðum þessum köppum.
Af erlendum leikmönnum komu nánast bara Evertonmenn til greina og þar var vængmaðurinn Trevor Steven, sem síðar fór til Glasgow Rangers ávallt minn maður, ásamt Aidrian Heath sem var viðurnefni sem margir FH-ingar hefðu borið með sóma en hann var kallaður Inchy.
Geturðu sagt okkur af eftirminnilegum samherja?
Ég er svo heppinn að hafa leikið með mörgum góðum knattspyrnumönnum og mörgum einstökum persónuleikum. Ég held að flestir samherjarnir í gegnum árin hafi verið eftirminnilegir á sinn hátt. Það hefur yfirleitt einkennt FH-liðin í gegnum árin að samheldni og góður andi hefur ávallt ríkt, burtséð frá því hvar í deild menn voru staddir.
Eftirminnilegt atvik af vellinum?
Það rennur mér seint úr minni árið sem Ian McCall núverandi framkvæmdastjóri Dundee Utd þjálfaði FH. Það sumar vorum við í efstu deild og ég spilaði á miðjunni þrjá fyrstu leiki mótsins. Síðan meiddist ég á ökkla daginn fyrir fjórða leikinn og var allt sumarið að jafna mig. Náði þó að koma mér í stand fyrir síðustu umferðina er við lékum gegn Þór Ak í Krikanum. Náði fyrstu 8 mínútunum og var þá borinn af leikvelli. Í þá daga klæddum við okkur í litla skúrnum við miðvöllinn og þegar búið var að bera mig inn í sjúkrabíl varð hann rafmagnslaus. Kallað var á annan sjúkrabíl og ég fluttur yfir í hann en þegar sjúkraflutningamennirnir voru að loka húddinu á þeim rafmagnslausa vildi ekki betur til en annar þrumaði húddinu í höfuðið á hinum og hann staulaðist aftur í til mín alblóðugur. Hvar gæti þetta gerst annars staðar en í Hafnarfirði?
|
Mynd úr FH fréttum 1988 |
Af hverju Everton?
Nil Satis Nisi Optimum – Aðeins það besta er nógu gott. Þetta eru einkunnarorð Evertonmanna og eiga vel við þegar maður setur markið hátt. Reyndar hélt ég með Leeds United þar til ég var 9 ára gamall en þá féll Leeds úr efstu deild og enginn var maður með mönnum nema hafa lið í efstu deild. Ekki vildi ég velja Liverpool, Arsenal, United eða lið sem margir héldu með. Setti því 10 neðstu liðin á þeim tíma í kartöflupott móður minnar og dró nafn Everton. Hef verið heitur fylgismaður alla tíð síðan.
Hvernig stóð á því að þú komst núna í aðstoðarþjálfarastöðuna?
Það æxlaðist nú þannig að tveimur vikum fyrir mót hafði Ólafur þjálfari samband við mig og spurði hvort ég gæti komið og aðstoðað sig með liðið. Ég hafði ekkert þjálfað í ein þrjú ár, síðan ég var hjá KR sem yfirþjálfari yngri flokka og hafði ekkert hugsað mér að fara út í þetta aftur. En eftir að hafa rætt við Óla og fleiri í kringum liðið ákvað ég að slá til og sé alls ekki eftir því.
Hvernig hefur Óli breyst síðan hann þjálfaði þig?
Óli hefur svo sem ekki mikið breyst, nema þá að ég held að stress-stundunum fjölgi með aldrinum. En hann leggur upp með það einfalda í fótboltanum eins og þá og er yfirleitt ekkert að flækja hlutina, enda fótboltinn einföld íþrótt.
Hvað er breytt í Krikanum síðan þú lékst með FH?
Svo sem ekkert verulega mikið held ég. Það eru áfram gerðar kröfur um að menn standi sig og líklega hafa þær nú aðeins aukist frekar en hitt. Sama fólkið mætir á völlinn en þó verð ég að segja að nýr hópur stuðningsmanna hefur bæst í hópinn. Hópur sem fylgir okkur hvert á land sem er og það hefur verulega jákvæð áhrif á liðsmenn.
|
Leifur á æfingu í Krikanum í júlí 2003
|
Hvað myndirðu vilja sjá breytast hjá FH?
Ég myndi vilja sjá rekstur svæðisins taka stakkaskiptum. Þar vantar verulega á skipulag auk þess sem æfingasvæðið á efsta palli er ónýtt og þarf endurnýjunar við. Gervigrasið er farið að hafa áhrif á fætur yngri iðkenda því þeir sem eru að taka út vöxt og þroska geta ekki æft á velli með slíku undirlagi mánðum saman að mínu mati. Tilkoma knattspyrnhúss verður mikil lyftistöng en afnot knattspyrnumanna af miðvellinum þarf líka að vera skipulagðari og meiri.
Hefur Íslandsmótið spilast eins og þú bjóst við? Ef ekki – hvað hefur verið öðruvísi?
Ég held að enginn hafi búist við að Íslandsmótið myndi þróast eins og það hefur gert. Þegar fjórar umferðir eru eftir geta 8 lið fallið í 1. deild og þau tvö sem fyrir ofan eru virðast vera að misstíga sig og eru alls ekki örugg með efstu tvö sætin. Það sýnir kannski best að hversu góðir leikmennirnir eru þá skiptir það ekki máli þegar út á völlinn er komið ef hugur fylgir ekki máli.
Hefur FH leikið eins og þú áttir von á?
Við höfum átt nokkuð misjafna leiki og alloft misjafna kafla í sama leiknum. Mér finnst þó að það hafi lagast mikið að undanförnu. Það býr mikið í okkar liði þó aðrir hafi ekki haft trú á því fyrir mót. Í hópnum eru allir að leggja sig fram og þar ríkir glaðvær og jákvæður andi. Þegar við náum að halda knettinum á jörðinni og láta hann ganga þá erum við með ansi frambærilegt lið. En að sama skapi þegar það tekst ekki gengur yfirleitt lítið upp.
|
Leifur með 6. flokk á Tommamótinu 1990 |
En gengi liðsins?
Liðið hefur verið brokkgengt. Við höfum nokkrum sinnum lent í þeirri stöðu að geta slitið okkur frá miðjupakkanum og blandað okkur í efri hlutann. Það hefur hins vegar brugðist. Ég er þó vongóður um að leikmenn komi rétt stemmdir til leiks gegn Eyjamönnum n.k. mánudag og með sigri þar tryggjum við veru okkar í deildinni og gætum farið að huga að stærri verkum.
Hvaða lið hafa komið á óvart að þínu mati?
Líklega hafa Fylkir og KR komið mér mest á óvart fyrir að spila ekki betur en raun ber vitni þrátt fyrir allar þær fjárfestingar sem gerðar hafa verið hjá þessum félögum. Eða hafa kannski hin félögin komið enn meira á óvart með því að standast þeim snúning?
Hvað finnst þér um það skotleyfi sem menn virðast hafa á þig vegna smæðar þinnar?
Litlu manna húmorinn hefur ávallt verið í gangi í FH. Nafni minn Helgason, Þórir Jónsson (gráa þústin), Óli Dan og fleiri smátröll voru náttúrulega leikmenn félagsins og síðan þá hefur þessi húmor ávallt verið uppá pallborðinu. Líklega hefur ekkert íþróttafélag í Evrópu átt minni formenn deildar en við í knattspyrnunni í FH með Þóri og Kidda litla frænda Þóris en samanlagt eru þeir tæpur meter.
Stundum finnst reyndar ókunnugum nóg um þegar við komumst á flug en ég held að það séum nú oft við litlu kallarnir sjálfir sem byrjum ballið með skothríð þegar færi gefst og þá er gott að vera vel vopnaður skemmtilegum frösum.
Á æfingu 1993
Frá vinstri: Höddi Magg, Hilmar Erlendsson, Daníel Einarsson, Auðunn Helgason, Daði Lárusson og Leifur Garðarsson
|