www.musikogsport.net
Fréttir Leikdagar/skýrslur Leikmenn Viðtöl Pistlar Skóhillan FH-ingurinn Lög og textar Spjallið Tenglar Myndir Sendu póst
Þri 25.nóv 2003    Þessi frétt hefur verið skoðuð 241 sinnum.
Magnús Ólafsson
Magnús Ólafsson er FH-ingurinn

Afhverju FH?
Það er algjör tilviljun. Ég er aðfluttur Hafnfirðingur, er búinn að búa í Hafnarfirði í næstum 40 ár. Ég kynntist hafnfirskri stúlku og öll hennar fjölskylda var gallharðir FH-INGAR . Þessi stúlka er konan mín í dag Elísabet Sonja Harðardóttir, það er henni að kenna eða þakka að ég varð þessi mikli FH-ingur. Ég er uppalinn í Laugarnesinu og var í yngri flokkum Fram í knattspyrnu og fór síðan í Þrótt, bæði í fótbolta og handbolta. Ég spilaði einmitt með meistaraflokki Þróttar í handbolta á móti FH í útimóti á Hörðvöllum. Ég man alltaf hvað við bárum mikla virðingu fyrir FH-liðinu, enda var FH þá algjört stórveldi í handknattleik.

Þegar ég flutti til Hafnarfjarðar þá man ég að ég hringdi í Geir Hallsteinsson og sagði honum frá því að mig langaði að æfa með FH í handbolta. Hann sagði mér að koma bara á æfingu, og ég mætti og fékk frábærar móttökur. Með FH-liðinu vann ég allt sem hægt er að vinna í handknattleik á Íslandi. Fór í nokkrar ógleymanlegar utanlandferðir í Evrópukeppninni og á yndislegar minningar með þessu frábæra liði. Þetta var lið í heimsklassa!!!!

Ég á 4 börn sem öll hafa fetað í fótspor foreldra sinna, verið og eru í FH.

Sá elsti er Hörður Magnússon sem alþjóð þekkir sem einn besta knattspyrnumann sem FH hefur alið og nú íþróttafréttamaður hjá Stöð 2 og Sýn.

Rósmundur Magnússon prentsmiðjustjóri spilaði lengi í handboltamarkinu eins og ég og var mjög góður, varð bikarmeistari með meistaraflokki árið 1994 og er það síðasti titill sem meistaraflokkur FH í handknattleik hefur unnið. Ótúlegt en satt.

Sonja Maggý Magnúsdóttir spilaði með FH í knattspyrnu upp í 2. flokk og er að klára stúdentinn í Flensborg þessa dagana.

Sá síðasti er Hjalti Freyr Magnússon nýlega orðinn 14 ára og æfir jafnhliða handbolta og fótbolta og þykir mjög efnilegur í báðum greinum, framtíðarmaður félagsins.

Það eru forréttindi að hafa fengið að ala börnin sín upp í þessu frábæra félagi sem FH er. Og ekki gleður það minna mitt FH-hjarta að barnabörnin mín eru líka byrjuð að æfa með FH!

Segðu okkur frá fyrstu ferðinni á FH-leik sem þú manst eftir.
Fyrsti leikurinn sem ég sá með meistaraflokki FH í knattspyrnu var á gamla Melavellinum. Þetta var í fyrsta skipti sem FH komst í úrslitaleik bikarkeppninnar í knattspyrnu. Andstæðingurinn var ÍBV og aðstæður eru mér ógleymanlegar. Malarvöllurinn var gaddfreðinn og menn voru eins og á skautum og reyndu að spila knattspyrnu eftir bestu getu. Stemmningin á Melavellinum var góð, en það var hlegið mikið af tilburðum annars góðra knattspyrnumanna á svellinu. Því miður tapaði FH leiknum 2-1. Í dag hefði þessi leikur aldrei farið fram við þessar aðstæður.

Segðu okkur frá eftirminnilegum leik.
Það er margs að minnast eftir öll þessi ár. Í handboltanum man ég eftir úrslitaleik í Laugardalshöllinni um Íslandsmeistaratitilinn milli Vals og FH. Það vissu allir að þetta yrði hökuleikur jafn góðra liða. Það voru skoruð ótrúlega fá mörk, enda vörn og markvarsla frábær. Ég var áhorfandi á þessum leik, ungur maður þá og nýbyrjaður að æfa. Ég held að ég hafi fengið létt hjartaáfall af spennu. Ég held að staðan hafi verið jöfn í hálfleik 6-6, ótrúlegt. FH-ingar náðu að vinna þennan frábæra leik 12-10. Hafnarfjörður umturnaðist í fagnaðarlátum og liðið hljóp í Fjörðinn með bikarinn. Þá var gaman að vera handboltaáhugamaður í FH.

Svo er það bikarleikurinn 1994 þegar við unnum KA með yfirburðum, við unnum reyndar leikinn í fyrrihálfleik, FH var með 9 marka forystu í hálfleik. KA átti aldrei möguleika út leikinn.

Í knattspyrnunni eru margir leikir eftirminnilegir. Ég man sérstaklega eftir leik í Krikanum gegn Víkingi. Staðan var 3-0 fyrir Víking í hálfleik. Ég hafði bara ekki taugar til að horfa á meira og fór heim í hálfleik. En viti menn FH vann 4-3. Þar var Hörður sonur minn hetja eins og venjulega.

Svo er það undanúrslitaleikur í bikarnum gegn Grindavík í Grindavík, staðan var 1-0 þegar leiktíminn var að renna út, þá jafnaði Hörður og það þurfti framlengingu sem FH vann 3-2 og Hörður var hetjan og kom félaginu í úrslitaleik gegn Val.

Annar leikur mun seint líða mér úr minni. Það var þegar FH átti möguleika á því að verða Íslandsmeistari í fyrsta skipti í sögu félagsins. Leikið var gegn Fylki sem var fallið í 2. deild. FH nægði jafntefli til að verða Íslandsmeistari. FH skorar 1-0 eftir 3-4 mínútur og maður hélt að framhaldið yrði auðvelt. En eins og allir FH-ingar vita jafnaði Fylkir og skoraði svo sigurmarkið í lokin 2-1. Það fóru margir FH-ingar heim með tár á kinn.

Hver er uppáhaldsleikmaður þinn og hvers vegna? (Núna/í gegnum tíðina)
Í handboltanum þá var það alltaf Geir Hallsteinsson og síðar Kristján Arason, einnig bar ég alltaf mikla virðingu fyrir Hjalta Einarssyni, sem er besti handknattleiksmarkmaður sem Ísland hefur alið, hann hafði ótrúlegar staðsetningar, og það er það sem að góður handknattleiksmarkmaður þarf að hafa. Geir Hallsteinsson er og verður alltaf ógleymanlegur, hann var algjör töframaður með knöttinn, maður vissi stundum ekkert hvað varð um boltann fyrr en hann lá í neti andstæðinganna. hann hafði líka ofboðslega gaman af þessu, maður sér ekki nógu mikið af þeirri leikgleði í dag. Kristján Arason var mjög traustur leikmaður og persóna, meistaraflokkurinn hefur ekki náð þeim klassa sem var þegar hann var leikmaður og þjálfari liðsins, hann skildi eftir stórt skarð þegar að hann hætti, sem seint verður fyllt. Það sem mér fannst að á þessum tíma þrátt fyrir góðan árangur hjá Kristjáni, að hann gaf ekki ungu mönnunum mikil tækifæri, sem varð til þess að uppbygging liðsins varð útundan. Það verður reglulega að gefa ungum mönnum tækifæri annars fara þeir eitthvað annað og liðið verður of gamalt.

Í dag er það Logi sonur Geirs sem ber höfuð og herðar yfir leikmenn FH-liðsins. Þegar ég sá hann spila í fyrsta skipti í meistaraflokki FH, var hann ótrúlega líkur pabba sínum í öllum töktum og leikgleði. Hann er líka frábær fyrirmynd sem íþróttamaður og það vantar fleiri slíka í okkar raðir. Hann er í einu orði sagt frábær!

Uppáhalds leikmaður minn í knattspyrnu er og verður Hörður Magnússon, þó að hann sé sonur minn. Hann fórnaði sér gífurlega fyrir FH. Hann byrjaði 5-6 ára að æfa íþróttir. Hann var samviskusamur og ósérhlífinn, enda bar það árangur þegar að fram liðu stundir. Ef að FH-ingar hefðu haft slíkan markaskorara sem Hörður var, í sumar, hefðu þeir farið létt með að verða Íslandsmeistarar. Að mínu viti hefði Hörður getað spilað 2-3 ár í viðbót. Ég vona bara að FH-ingar eignist aftur slíkann leikmann, fyrr verða þeir ekki Íslandmeistarar í knattspyrnu. Það þarf jú að skora mörk til að vinna leiki!!!!!

Í FH-liðinu í dag, það er að segja meistaraflokki karla í knattspyrnu, finnst mér vanta meira af mönnum sem eru uppaldir hjá félaginu, mér er illa við að verið sé að kaupa miðlungs leikmenn úr öðrum liðum, við erum með mikinn efnivið í yngri flokkum og getum búið til frábæra leikmenn sjálfir. 2. flokkur félagsins sýndi það heldur betur í sumar. Félagið á að halda í þessa ungu stráka og treysta þeim. Danirnir sem við fengum stóðu sig vel og mér finnst Heimir Guðjónsson fyrirliði traustur leikmaður. Einnig var sárt að sjá eftir Hilmari Björnssyni.

Hvert er eftirminnilegasta markið sem skorað hefur verið í Krikanum?
Það er hið ótrúlega mark sem Hörður Magnússon skoraði 1991 í leik gegn KR í Krikanum, sem FH vann 2-0. Hörður lagði upp fyrra markið, enn seinna markið var ótrúlegt. Hörður fékk boltann á sínum vallarhelmingi nálægt miðju og lék á hvern KR-inginn á fætur öðrum. Komst í skotfæri upp við vítateig (þetta var á norðurmarkið) skaut í hægra hornið og boltinn fór í stöng og aftur í vinstri stöng og út og þar var Hörður mættur og afgreiddi botann í netið. Ég stóð einmitt í brekkunni og trúði ekki mínum eigin augum. Svona gera ekki nema snillingar.

Hver hefur verið besta stundin sem FH aðdáandi? En sú versta?
Það eru svo margar gleðistundir og slæmar stundir eftir öll þessi ár. En í seinni tíð finnst mér þær slæmu hafa vinninginn, sérstaklega í meistaraflokki í handboltanum.

Það ánægjulegasta er hvað yngri flokkar félagsin blómstra bæði í fótbolta og handbolta.

Hvaða leikmann viltu sjá í FH treyju? Og hvern viltu alls ekki sjá í FH treyju?
Ég vil sjá alla þá sem eru sannir FH-ingar og eru uppaldir hjá félaginu verða í FH-treyjunni. Mér finnst alltof margir uppaldir hjá félaginu fara til liðs við önnur félög, þá á ég sérstaklega við um handboltann. Annars vil ég engum banna að klæðast FH-treyjunni. Það væri gaman að sjá Michael Owen í FH-treyju

Það á að vera eftirsóknarvert að vera FH-INGUR og klæðast FH-peysunni!!!!

Hverjir eru verstu andstæðingar FH að þínu mati?
Það eru allir verðugir sem andstæðingar FH.

Hverju myndir þú breyta hjá FH?
Að hætta að kaupa miðlungsleikmenn úr öðrum félögum og nota þá sem við sjálfir erum að ala upp bæði í knattspyrnu og handknattleik!!!!!!!!!

Hvernig myndir þú stilla upp liði ef þú gætir valið úr öllum leikmönnum FH fyrr og síðar?

Stefán/Daði
Auðunn Helga - Sverrir Garðars - Tommy Nielsen - Óli Kristjáns
Viddi Halldórs - Janus Guðlaugs - Heimir Guðjóns – Hilmar Björns
Hörður Magnússon - Allan Borgvardt




Hvaða liði heldur þú með úti í hinum stóra heimi?
Ég er mikill Liverpool-maður og hef verið síðan ég sá þá spila Evrópubikarleik gegn KR á Laugardalsvellinum. Ég er helsjúkur Púllari eins og FH-ingur og verð það til dauðadags. Ég flagga alltaf Liverpool-fánanum á heimaleikjum þeirra.

Ef ég ætti FH-fána þá gerði ég slíkt hið sama.

Hvar sérðu FH fyrir þér eftir 10 ár?
Ef að rétt verður haldið á málum félagsins, þá ætti meistaraflokkur FH í knattspyrnu að verða Íslandmeistari í knattspyrnu innan 10 ára og handboltinn verður að taka sig á ef þeir ætla að gera það sama.

Svo vona ég líka að það verði betra samstarf milli knattspyrnudeildar og handknattleiksdeildar, í dag er það ekki eins og það á að vera.

Og FH haldi í sem mest af þessu unga og efnilega íþróttafólki sem er að æfa með félaginu.

ÁFRAM FH!!!
<< Eldri frétt     Nýrri frétt >>
Staðan

Sæti Félag Stig
1. FH 36
2. KR 30
3. Valur 29
4. Keflavík 24
5. Breiðablik 23
6. ÍA 22
7. Víkingur 21
8. Fylkir 21
9. Grindavík 19
10. ÍBV 15

Markahæstir

Tryggvi 8
Atli Viðar 4
Allan Dyring 4


Síðustu leikir

5 4 3 2 1
T J J U J

 

 


Síðasti leikur

Grindavík - FH

1:1


Næsti leikur

FH - KF Nörd
4. okt.

?:?

Laugardalsvöllur

Hraunhamar Avion Group Saltkaup Dominos Fasteignasalan Ás
DesignEuropA
 
DesignEuropA Heim