www.musikogsport.net
Fréttir Leikdagar/skýrslur Leikmenn Viðtöl Pistlar Skóhillan FH-ingurinn Lög og textar Spjallið Tenglar Myndir Sendu póst
Fös 11.apr 2003    Þessi frétt hefur verið skoðuð 34 sinnum.
Á einhver að sjá um Kaplakrikasvæðið?
Orri Þórðarson reifar málefni Kaplakrikavallarins

Nú er kominn miður apríl og tré og runnar að springa út óvenju snemma eftir einmuna tíð. Lóan kemur bráðum þótt engan þurfi hún snjóinn burt að kveða og græn slikja komin á tún og engi. Það er öllum ljóst hvort sem þeir sinna garðinum heima eða hafa umsjón með knattspyrnu– eða golfvöllum að það þarf að hlúa vel að grasi og gróðri á þessum árstíma ef vel á að vera. Þar á við hið fornkveðna að þú uppskerð sem þú sáir.
Það væri öfugmæli að halda því fram að við FH-ingar hefðum þessi hyggindi bóndans í huga og í raun hefur það verið aðhlátursefni hvernig við höfum sinnt okkar svæði undanfarin ár. Í Kaplakrika hefur t.d. ekki verið starfandi vallarstjóri í hátt á annað ár eða frá því að Kristinn Kristinsson sagði starfi sínu lausu í lok árs 2001. Í fyrravor voru málin leyst þannig að knattspyrnudeildin og frjálsíþróttadeildin skiptu svæðinu á milli sín og réðu sinnhvorn manninn til umsjónar út sumarið. Þetta fyrirkomulag var hugsað til bráðabirgða og nokkurs konar redding enda var ástandið í félaginu fyrir ári síðan nokkuð viðkvæmt. Viðræður við bæjaryfirvöld um nýjan rekstarsamning stóðu yfir, aðalstjórn var vart starfandi og samstarf milli knattspyrnudeildar og frjálsíþróttadeildar hafði verið stirt um nokkurt skeið. Þessi högun mála gekk þokkalega og munaði mestu um ágætt samstarf knattspyrnudeildar og frjálsþíþróttadeildar. Í haust hættu báðir þessir menn störfum og síðan hefur enginn haft umsjón með Kaplakrikasvæðinu, viðhaldi á völlum og brautum, mörkum og tækjum. Afleiðingar þessa sinnuleysis blasa við knattspyrnumönnum; sum markanna eru í henglum, netin götótt, gervigrasvöllurinn er vart í nothæfu ástandi og svæðið allt draslaralegt. Frjálsíþróttamenn hafa vafalaust svipaða sögu að segja.
Viljum við hafa Kaplakrikasvæðið svona?
Það er búið að vera ljóst í marga mánuði að það þarf að ráða mann til að hafa umsjón með svæðinu. Það sér hver heilvita maður að það gengur ekki til frambúðar að skipta svæðinu upp á milli deilda og draga landamæri. Það gekk ekki í Berlín og það gengur heldur ekki í Kaplakrika. Vallarstjóri á að hafa yfirsýn með öllu svæðinu og þarf að hafa samskipti við ýmsa aðila, t.d. bæjaryfirvöld, sérsambönd o.fl. og við þurfum að koma fram sem eitt félag. Vallarstjóri á að vera starfsmaður aðalstjórnar og fá ákveðið fjármagn til að reka svæðið og ákveða nýtingu á því í sem bestri sátt við allar deildir félagsins. Hinsvegar má vel hugsa sér að deildirnar séu með sinnhvorn starfsmanninn undir vallarstjóranum sem sinni meira „sínum svæðum” og séu ígildi flokksstjóra.
Mér skilst að aðalstjórn félagsins sé á þessari skoðun en knattspyrnudeildin og frjálsíþróttadeildin vilji hafa þetta eins og í fyrra, að hvor deild sjái um sitt svæði og fái að auki fjárráð með þeim peningum sem ætlaðir eru til rekstur svæðisins. Þessi afstaða knattspyrnudeildar og frjálsíþróttadeildar veldur mér miklum vonbrigðum og ég tel að það verði mikið ógæfuspor ef hún verður ofan á. Reyndar skil ég vel að forystumenn deildanna séu langþreyttir á aðgerðarleysi aðalstjórnar en menn eiga að sjá að þetta er ekki rétta leiðin. Það hlýtur að vera hægt að finna duglegan vallarstjóra sem hugsar vel um allt svæðið og sinnir þörfum beggja deilda. Aðalstjórn ber ábyrgð á rekstri svæðisins og verður að hafa bein í nefinu til að taka af skarið fyrst menn eru enn að tala um þetta fram og til baka og einn mánuður í Íslandsmótið í knattspyrnu!
Gleymum þvi ekki heldur að við berum ábyrgð, ekki aðeins gagnvart iðkendum í félaginu sem borga æfingagjöld og ætlast til þess að félagið geri sitt ítrasta til að tryggja þeim bestu mögulegu æfingaaðstöðu, heldur einnig gagnvart bæjaryfirvöldum sem leggja sitt af mörkum til uppbyggingar íþróttaaðstöðu.
Eins og staðan eru núna er ekki eftirsóknarvert að vera þjálfari yngri flokka FH í knattspyrnu. Áður var vikið að ástandi gervigrasvallarins en hið litla grasæfingasvæði sem félagið hefur upp á að bjóða er handónýtt og hreinlega hættulegt iðkendum og þarf að taka allt upp og endurbæta fyrr en síðar. Það lítur samt ekki vel út að krefjast úrbóta í þessum málum af hálfu bæjarins ef við erum ekki að gera okkar ítrasta í umhirðu svæðisins.
Ég enda þennan pistil á ljóðlínum Harðar Zophaníassonar, míns gamla skólastjóra, úr hinum ódauðlega söngleik um Gilitrutt. Ég lék reyndar bóndann (frekar tilþrifalítið hlutverk!) og Harpa Melsteð lék bóndakonuna. Þessar línur eru mæltar af bóndanum sem vill drepa lata eiginkonu úr dróma iðjuleysis. Þetta kemur að vísu efni greinarinnar ekki mikið við þó lesi megi svipaðan boðskap milli línanna. Mér fannst bara tími til kominn að þetta meistaraverk liti dagsins ljós!

Dagur er risinn nú dugar ei lengur
að drolla og slæpast því klukkan gengur.
Hvað skal nú starfa? hverju skal sinna?
Hvað á í dag að vinna?

Gleðilegt sumar!
Orri Þórðarson
     Nýrri frétt >>
Staðan

Sæti Félag Stig
1. FH 36
2. KR 30
3. Valur 29
4. Keflavík 24
5. Breiðablik 23
6. ÍA 22
7. Víkingur 21
8. Fylkir 21
9. Grindavík 19
10. ÍBV 15

Markahæstir

Tryggvi 8
Atli Viðar 4
Allan Dyring 4


Síðustu leikir

5 4 3 2 1
T J J U J

 

 


Síðasti leikur

FH - HK

0:0
Næsti leikur

Lengjubikarinn
FH - Stjarnan
Mánudagur
02. apríl

18:30

Fífan

Fasteignasalan Ás Saltkaup Dominos Hraunhamar Avion Group
DesignEuropA
 
DesignEuropA Heim