Lau 21.jún 2003
Viðtal við Jónas Grana Garðarsson
Við fengum markakóng FH árin 2001 og 2002 til að svara nokkrum spurningum fyrir vefinn.
Hverjir eru fjölskylduhagir þínir? Ég er giftur Eygló Traustadóttur. Við eigum saman Garðar Elí (4 ára) og Hildi Maríu (1 árs) en fyrir átti hún Guðjón Trausta (9 ára).
Ferillinn
Ég byrjaði að æfa fótbolta með Völsungi á Húsavík 7 ára gamall og spilaði með þeim upp alla yngri flokka. Ég fór á mína fyrstu mfl. æfingu 15 ára gamall þegar Völsungur var í 1. deild árið 1988 og sat á tréverkinu síðustu 2 leikina það ár.
Fyrsta mfl. leikinn spilaði ég gegn ÍBV í Eyjum í ágúst 1989 í 2. deild. Ég spilaði svo með Völsungi í 2. og 3. deild til ársins 1998 þegar ég gekk til liðs við risann í Hafnarfirði.
Hvernig kom til að þú komst til FH?
Ég kom í FH fyrir tilstilli Róberts Magnússonar fyrrverandi fyrirliða. Við kynntumst í Háskólanum þar við lærðum sjúkraþjálfun. Þáverandi þjálfari, Pétur Ormslev, gaf grænt ljós á að ég gengi til liðs við risann en hann var reyndar sofandi þá (þe. risinn, ég er ekki viss með Pétur en hann hefur þá vaknað við tolleringuna seinna um haustið!!).
Berðu eitthvert viðurnefni?
Eins og margir fleiri hef ég fengið viðurnefni innan hópsins. Ég er kallaður Dr. Grani eða Doktorinn sem tengist starfi mínu sem sjúkraþjálfari, en ég hef farið mjúkum höndum um nokkra leikmenn liðsins þegar þeir hafa verið að kvarta. Lúðvík Arnarson kom þessu nafni á mig fyrir nokkrum árum.
Hvað geturðu sagt okkur um Óla Jó?
Óli er fínn þjálfari sem tekur sig ekki of hátíðlega og hefur staðið sig vel það sem af er þrátt fyrir erfiðar aðstæður og mikil meiðsli.
Hann hefur góða þekkingu á fótbolta og veit hvað hann er að tala um ásamt því að vera nokkuð klókur með að leggja upp leiki og að segja eitthvað af viti í hálfleik, en það eru hvoru tveggja mjög mikilvægir kostir. Óli er ekki mikið fyrir að eltast við óþarfa smáatriði og hann er ekki mjög tæknilega sinnaður enda má deila um hversu mikilægir kostir það eru fyrir þjálfara að geta unnið með GSM síma og tölvu!
Helstu áhersluatriði Óla eru að menn leggi sig fram, hafi gaman af hlutunum og að við reynum að spila góðan fótbolta.
Þrátt fyrir erfitt gengi á undirbúningstímabilinu þá var það skemmtilegt og ég hef trú á því að Óli eigi eftir að reynast FH vel í þetta sinn eins og áður þegar hann hefur þjálfað FH.
…og Leifur Garðars?
Leifur hefur komið mjög skemmtilega inní dæmið, er kraftmikill, hvetjandi, vel skipulagður og hjá honum er alltaf stutt í húmorinn. Hann og Óli eru gott par sem ég hef trú á að geti gert góða hluti með þetta lið.
Hvort lítur þú á þig sem miðjumann eða sóknarmann?
Ég er sókndjarfur miðjumaður! Hef nánast alla mína tíð spilað á miðjunni en mér leiðist það ekkert, frekar en öðrum í boltanum, að vera settur í senterinn.
Hvað hentar þér best?
Sú staða sem hentar mér best, að mínu mati, er að vera fremstur á miðjunni þar sem auðvelt er að stinga sér fram á við ásamt því að hafa svolitla varnarskyldu líka.
Fyrirmyndir sem sóknarmaður/miðjumaður?
Sem ungur drengur hélt ég alltaf mikið upp á Arnór Guðjohnsen og Kenny Dalglish en skynsamlegasta fyrirmyndin í dag, miðað við þá stöðu sem ég spila, er Paul Scholes en hann er bara ekki í réttu liði!
Getur þú sagt okkur af einhverju skemmtilegu atviki á velli?
Tolleringin á Pétri Ormslev haustið´98 þegar við héldum að við værum komnir upp. Það var reyndar ekki fyndið þá en er óneitanlega broslegt atriði. Við fengum svo að vita að við værum ekki uppi og Pétur lenti í grasinu!!
Áhugaverður samherji
Sigurður Jónsson var mikill leiðtogi og góður leikmaður, svekkjandi að hann skyldi ekki geta spilað meira, hver veit hvað hefði gerst þá….
Einnig er rétt að nefna hér Hallstein Arnarson sem var frábær fótboltamaður og hafði sérstakar skoðanir á öllu og öllum, hann fann upp “fuglana” og “skemmdu eplin” – en þau eru flest horfin úr kassanum!!
Erfiður andstæðingur
Þeir eru nokkrir, sérstaklega ef boltinn er í loftinu! Þá kemur td. Gunnlaugur Jónsson upp í hugann. Þórhallur Hinriksson var nánast alltaf á sömu torfunni og ég á KR-vellinum í fyrra – það er vont.
Hver var þinn fyrsti leikur með FH?
Spilaði minn fyrsta leik fyrir FH gegn Keflavík 20. mars 1998 í deildarbikarnum, við unnum leikinn 2-1, Binni Gests og Höddi Magg (kemur ekki á óvart) skoruðu.
Ert þú hjátrúarfullur fyrir leiki?
Ég hef verið með sama handklæðið frá því ég komst í liðið 2001 og ég borða oftast kjúklingabringur kvöldið fyrir leik. Annars er ég ekki mjög hjátrúarfullur þrátt fyrir að hengja fötin alltaf á sama snagann, pússa skóna alltaf á sama tíma, vera helst næst síðastur út að hita upp o.sv.frv.!!!!!
Með hverjum heldurðu í útlöndum?
LIVERPOOL og Real Madrid
Getur þú sagt okkur af einhverjum sérstaklega sætum sigri?
Þeir eru sem betur fer nokkrir td. úrslit deildarbikarsins 2002 og 2-1 sigur gegn KR í Frostaskjólinu 2001.
|