Heim
Fréttir Leikdagar/skýrslur Leikmenn Viðtöl Pistlar Skóhillan FH-ingurinn Lög og textar Spjallið Tenglar Myndir Sendu póst
Fös 16.maí 2003
Viðtal við Ólaf Davíð Stefán Jóhannesson
Mynd: this.is/fh
Við tókum viðtal á dögunum við Óla Jó þar sem hann ræddi um ferilinn, átrúnaðargoðin, FH liðið í dag og fleira.


Fjölskylduhagir: Giftur Guðnýju Haraldsdóttur, börn: Davíð Örvar Ólafsson og Guðný Ólafsdóttir.

Menntun: Trésmiður


Knattspyrnuferill:
Ég spilaði bæði knattspyrnu og handknattleik með Haukum lengi vel en það má nú varla segja frá því. Spilaði með FH tímabilið 1986 undir stjórn Inga Björns Albertssonar og tók svo við þjálfun liðsins árið 1988. Í millitíðinni lék ég með Val 1987 þar sem ég varð Íslandsmeistari með liðinu.

Óli íslandsmeistari með Val
Óli í meistaraliði Vals 1987

Ég lék þar við hlið Guðna Bergssonar og Þorgríms Þráinssonar í vörn Vals. Árið 1988 tók ég svo við FH liðinu sem þá var í gömlu annarri deildinni sem nú er fyrsta deild. Við sigruðum hana með glæsibrag, vorum búnir að tryggja okkur upp eftir 13 umferðir. Lentum svo í öðru sæti í úrvalsdeild næsta sumar eftir ógleymanlega viðureign við Fylki í lokaumferðinni. Það sem var sérstaklega eftirminnilegt við þennan leik var hugarfar leikmanna. Það voru ekki gerðar neinar væntingar til FH liðsins í upphafi leiktíðar. Liðið hafði engar stjörnur innanborðs en náði samt svona langt og menn voru hundfúlir eftir leikinn þó svo að þetta hafi verið besti árangur FH til þessa. Þannig á hugarfarið að vera.


Hver er eftirminnilegasti samherjinn?
Höddi Magg, engin spurning. Ótrúlegur knattspyrnumaður. Viðar Halldórsson var líka magnaður samherji þó svo ég hafi bara leikið með honum í eitt ár. Hann var gríðarlegur leiðtogi og frábær karakter.


Hvers vegna hefur gengið svona illa á undirbúningstímabilinu?
Það sem hefur valdið okkur mestum erfiðleikum á undirbúningstímabilinu er varnarleikurinn. Sverrir er að koma frá Molde þar sem hann er búinn að vera meiddur og er því í lítilli leikæfingu. Freyr og Ásgeir hafa einnig verið frá vegna meiðsla og skortir líka leikæfingu. Það hefur aldrei verið hægt að stilla upp sama byrjunarliði tvo leiki í röð, alltaf nýjir menn í öftustu línu.


Hverjir telur þú vera styrkleika FH liðsins?
Hópurinn er þokkalega breiður og jafn, vel spilandi og gæti komið virkilega á óvart ef vörnin og miðjan smella saman. Ég er líka á því að Daði Lárusson sé besti markvörður deildarinnar ásamt Birki Kristinssyni.

Allan og Tommy?
 Allan og Tommy hafa styrkt hópinn mikið ekki bara á vellinum heldur líka félagslega. Þeir eru mjög heilsteyptir, greinilega toppmenn og eiga án efa eftir að reynast okkur dýrmætir í sumar. Ég hafði oft séð þá spila þegar ég bjó í Árósum og þegar Óli Kristjáns sem er aðstoðarþjálfari AGF bauð okkur þessa leikmenn vissi ég að þeir gætu reynst okkur vel.


Íslandsmótið framundan, hverju spáir þú?
Ég spái því að KR vinni mótið býsna örugglega þó FH hafi alltaf gengið vel með þá. Grindavík og Fylkir verða ofarlega enda vel mönnuð lið. Svo geta öll sjö liðin sem eftir eru hafnað í 4. sæti og þau geta líka öll hafnað í 10. sæti, þar með talið FH. Við höfum alls ekki lakari mannskap en hin liðin þetta er bara spurning um hvernig liðin koma undirbúin til leiks.


Hvað finnst þér um þessar hrakspár sem komið hafa fram í fjölmiðlum?
Við eigum að geta nýtt okkur þær ef við erum klókir. Önnur lið gætu vanmetið okkur sem gæti þýtt ódýr stig í upphafi móts.


Er líklegt að einhverjir af þeim ungu leikmönnum sem við höfum séð á undirbúningstímabilinu verði með í sumar?
Jú, það eru allar líkur á því. Málið er bara að finna réttu blönduna á milli ungra og gamalreyndra leikmanna. En það er kominn tími á að þessir ungu strákar stígi upp og fari að bera þyngri byrðar innan liðsins en þeir hafa gert hingað til.


Ef þér gæfist kostur á að kalla inn eina af eldri stjörnum liðsins, hver yrði þá fyrir valinu?
Þessa dagana þarf helst að styrkja varnarleikinn þannig að Viðar Halldórsson yrði sennilegast fyrir valinu til að stjórna vörninni eins og hann gerði í gamla daga þó svo hann hafi alltaf verið fremsti maður sem vinstri bakvörður. Honum tókst þó alltaf að koma þeim sem eftir urðu í skilning um að þeir ættu að verjast á meðan hann væri frammi.


EusebioHverjar voru fyrirmyndir þínar í knattspyrnu á yngri árum?
Liverpool liðið (Óli lagði afar mikla áherslu á að það væri sigursælasta lið Englands). Ég hélt líka mikið upp á Eusebio og mér er það sérstaklega minnisstætt þegar hann kom til Íslands til að spila með Benfica á Laugardalsvelli gegn Val 1968. Það kom meira að segja mynd af mér í bókinni hans, ég var nefnilega í skottinu á honum allan daginn. Mætti inn á Loftleiðir klukkan átta á morgnana, tók fyrsta strætó og svo elti ég hann bara.


Geturðu sagt okkur frá eftirminnilegu atviki af vellinum?
Ég var einu sinni rekinn út af fyrir að segja hvað ég heiti. Dómarinn spurði mig til nafns og ég sagði Ólafur. Hann sagði: “Meira?” Ég sagði: “Davíð.” “Meira?” segir þá dómari. “Stefán” segi ég og við það fékk ég rautt spjald því hann hélt ég væri að gera grín að sér.


Eitt sinn var ég líka að spila austur á Vopnafirði, þegar ég þjálfaði í Borgarnesi. Þá kom eitthvað upp á vellinum og urðu mikil læti. Dómarinn hljóp inn í miðjan hóp og gaf mér rautt spjald þó sökin væri alls ekki mín. Hann sagðist þekkja mig og að ég væri líklegastur. Með það á bakinu fékk ég að fjúka út af.


<< Eldri frétt     Nýrri frétt >>
Staðan

Sæti Félag Stig
1. FH 45
2. Valur 32
3. ÍA 26
4. Keflavík 24
5. KR 22
6. Fylkir 20
7. Fram 17
8. ÍBV 17
9. Grindavík 15
10. Þróttur 10

Markahæstir

Allan 13
Tryggvi 13
Auðun 4


Síðustu leikir

5 4 3 2 1
U U U U T


Síðasti leikur

ÍA - FH 2 1


Næsti leikur

FH - Fylkir
11. sept.

14:00

Kaplakriki

Aðalskoðun Fjölsport Sigga og Timo Laust auglýsingapláss Fasteignastofan
2004 This.is/FH Hönnun: DesignEuropA
Heim musikogsport.net musikogsport.net