Fös 02.maí 2003 Þessi frétt hefur verið skoðuð 164 sinnum.
Viðtal við Allan og Tommy
Við brugðum okkur í heimsókn til Tommy Nielsen og Allan Borgvardt í gær og lögðum fyrir þá nokkrar spurningar. Hér getið þið m.a. lesið hvað þeir hafa að segja um muninn á knattspyrnu í Danmörku og hér, nýju sektakerfi sem þeir hafa innleitt og ástæður þess að þeir yfirgáfu AGF. Fyrsta spurning hlaut alltaf að verða:
How do you like Iceland?
Tommy: Þetta hefur verið almennt jákvæð reynsla, öðruvísi náttúra en við erum vanir, okkur er almennt tekið opnum örmum, en maður þarf auðvitað að koma sér fyrir hérna.
Af hverju í ósköpunum ákváðuð þið að koma hingað til Íslands?
Allan: Ég varð að reyna eitthvað nýtt, það var þetta sem bauðst, hefði getað verið hvað sem er annað – auðvitað aðallega vegna Óla Kristjáns og sambands hans við FH.
Tommy: Það skipti auðvitað líka máli að félagaskipti eru ekki leyfð á þessum tíma, hefðum þurft að vera mánuði fyrr á ferðinni ef við hefðum viljað fara eitthvað annað innan Evrópu. Ekki það að við höfum haft tilboð annarsstaðar frá en það var lokað fyrir möguleikann.
En þið vilduð báðir komast frá AGF?
Báðir: Já – við vildum spila fótbolta, nennum ekki að spila með varaliðinu og þegar manni finnst maður vera nógu góður til að spila með aðalliðinu þá verður maður auðvitað pirraður ef maður spilar ekki með þvi.
Þið hafið látið skína í það í viðtölum að þið hafið ekki bara verið að koma vegna fótboltans heldur verið að sverma fyrir að upplifa eitthvað nýtt. Hvað er það þá helst?
Allan: Þetta er í fyrsta skipti sem við komum til Íslands báðir tveir, þannig að allt er nýtt fyrir okkur svo það er aðal bónusinn, fyrir utan fótboltann.
Tommy: Ég hef gaman að því að fara í veiði. Ég vissi nú reyndar ekki áður en ég kom að það kostaði hálfan bóndabæ að veiða í góðum ám. Ég get vel látið mér nægja að veiða í „minni” ám. Svo verðum við eitthvað í túristaleik líka. Ég ætla að vera duglegur að spila golf.
Án þess að ætla að hnýsast í launamál langar mig að vita hvað félagið útvegar ykkur til að sjá hvernig það tekur á móti nýjum leikmönnum.
Allan: Þeir útveguðu íbúðina, leigðu bíl fyrir okkur og alla „praktíska” hluti sér félagið um. Við erum alveg sáttir.
Ég heyrði af því að þið hefðuð komið á sektakerfi hjá meistaraflokki. Getið þið frætt okkur nánar um það?
Tommy: Þetta er nokkuð sem við erum vanir frá Danmörku og ég held að samskonar kerfi hafi verið notað hér þó það hafi ekki verið í fyrra. Þegar leikmenn „laver noget lort”, t.d. gleyma hlutum eða fá heimskuleg gul spjöld t.d. fyrir að sparka boltanum í burtu, fá rautt spjald, koma of seint á fundi eða ef farsímar hringja á fundum þurfa þeir að borga. Þetta er til að safna saman peningum fyrir veislu í lok leiktíðar en á líka að vera til að skapa meiri samheldni í hópnum. Það er líka hugsanlegt að við förum saman út að borða á miðri leiktíð ef það verður nóg í sjóðnum.
Það borga ekki allir jafn mikið, þeir yngri sem eru á lágum launum borga minna en hinir.
Hversu háar upphæðir er um að ræða?
Allan: Þær eru „táknrænar”– ekki mjög háar.
Hver er munurinn á fótboltanum hér og í Danmörku?
Tommy: Það er lítill munur hvað varðar líkamlegan styrk hér og í Danmörku. Menn eru almennt svolítið teknískari í Danmörku sem og betri þegar kemur að taktík. Hér skortir ekki vilja – ég hef upplifað að menn mæta 100% ákveðnir til leiks og vilja vinna hvert einasta návígi.
Allan: Það mætti ef til vill líkja hugarfari leikmanna hér við hvernig er spilað á Englandi.
Getið þið sagt okkur frá einhverjum áhugaverðum samherjum?
Það eru margar skemmtilegar týpur í liðinu og nokkrir sem við náum vel saman við. Það er nokkur munur á aldri leikmanna – hópur eldri leikmanna sem við höfum mest samband við og svo þeir yngri. Við höfum ekki verið nógu lengi til að segja einhverjar sögur.
Allan, getur þú sagt okkur hvers konar knattspyrnumaður Tommy er? (Það skal tekið fram að þeir sátu hlið við hlið)
Allan: Tommy er fjölhæfur knattspyrnumaður og mun stjórna vörninni hjá FH. Hann er afar teknískur, ekki klassískur varnarmaður sem kýlir boltann burtu. Það mætti vel nota hann á miðjunni líka. Tommy er líkamlega sterkur og góður skallamaður.
Tommy: Ég ætti eiginlega að spila hjá Milan. Ég fíla bara Milano ekki nógu vel. Þess vegna kom ég til Hafnarfjarðar.
Og öfugt, Tommy, hvernig leikmaður er Allan?
Tommy: Hann hefur mjög góðan teknískan grunn og er líkamlega sterkur. Hann getur bæði spilað sem sóknarmaður og líka fyrir aftan sóknarmenn. Hann hefur líka spilað hægri kant en kann best við sig í sókninni. Maður spilar jú best í þeim stöðum sem manni finnast skemmtilegastar. Allan er þrælgóður að vinna bolta, tekur vel við bolta og skýlir frá andstæðingum. Hann vinnur mjög mikið af návígjum. Hann ætti að verða markahæstur hérna.
Þið getið augljóslega ekki spilað fótbolta allan daginn. Hvað gerið þið í frítímanum?
Tommy: Við erum ennþá að koma okkur fyrir í íbúðinni. Ég reikna með að við förum svo í túristaleik og skoðum helstu ferðamannastaði landsins.
Allan: Ef mér fer að leiðast þá hef ég velt fyrir mér að taka einhver námskeið hérna.
Hvaða væntingar hafið þið til gengis FH í sumar?
Tommy: Liðið er gott og gæti náð langt en má ekki við miklum meiðslum, sérstaklega á ákveðnum vígstöðvum. Við þurfum að byrja vel en það er klárt að við erum með mjög gott lið.
Það er etv. erfitt fyrir ykkur að fá yfirsýn þar sem þið hafið ekki séð mikið til hinna liðana?
Tommy: Jú við sáum nokkur þeirra á Canela Cup og við getum alveg unnið þessi lið rétt eins og þau geta unnið okkur.
Allan: Deildin er mjög opin sýnist mér og mér hefur heyrst að hún sé sterkari í ár en oft áður. Ég sé ekki augljósa meistarakandídata.
Nú hafa einhverjir ekki verið allt of bjartsýnir á gengi FH og jafnvel spáð þeim falli.
Tommy: Nei það kemur ekki til greina. Við föllum ekki, því lofa ég. En það er okkur í hag að vera spáð slöku gengi. Þá gætum við náð í nokkur auðveld stig ef andstæðingurinn vanmetur okkur.
Þannig að svona tal kemur ekki illa við ykkur?
Allan: Þá gætum við allt eins farið strax heim.
|