Mið 29.mar 2006 Þessi frétt hefur verið skoðuð 258 sinnum.
Viðtal við Allan Dyring
|
Mynd: Fótbolti.net |
Eftir undirritun samninga í dag fengum við nokkrar mínútur með Allan Dyring til að fræðast aðeins meira um þessa 5. sendingu okkar frá Danaveldi á þessari öld.
Fjölmenni var við blaðamannafundinn og ýmsir aðilar stukku á Allan og óskuðu honum til hamingju með samninginn, flestir á íslensku.
Sæll og velkominn. Hvernig gengur þér að skilja það sem fer fram í kringum þig?
Það eru auðvitað mörg orð sem eru sameiginleg dönsku. Ég hef farið út að borða nokkrum sinnum og hef skilið stóran hluta matseðilsins. Ég næ samt ekki að fylgjast með í samtölum ennþá.
Ertu svolítill tungumálamaður? Ég er ágætur að grípa það sem er að gerast. Ég var sæmilegur í spænsku og ég og kærastan mín ætlum að sækja námskeið í íslensku.
Kemurðu með fjölskyldu með þér?
Já kærastan kemur í apríl og með henni fjögura mánaða barn okkar.
Þú og nafni þinn Borgvardt eruð vinir er það ekki?
Jú við spiluðum saman í Esbjerg þar til við urðum 15 ára en þá fluttist hann til Árósa en ég til Vejle en héldum alltaf sambandi. Síðar fluttist ég svo til Árósa.
Hafði hann áhrif á að þú ákvaðst að koma til Íslands?
Það var ekki það eina sem varð þess valdandi en bæði hann og Tommy höfðu áhrif. Tommy var í Árósum á sama tíma og ég.
Hvað fleira spilaði inní?
Ég og kærastan mín höfum gaman af að kynnast nýjum stöðum. Allan talaði mikið um hve náttúran hérna væri stórkostleg. Mér fannst líka spennandi tækifæri að fá að spila með meistaraliði og auðvitað líka að fá að taka þátt í Evrópukeppni.
Vissirðu eitthvað um íslenska knattspyrnu áður en þetta kom til?
Já ég fylgist auðvitað með knattspyrnu yfir höfuð og hef tekið eftir nokkrum af þeim sterku leikmönnum sem hafa komið héðan. Eitthvað hljótið þið þá að geta.
Er það rétt að þú hafir verið markahæstur í Fredericia á haustmánuðum?
Já það passar. Ég var líka markahæstur eftir síðasta tímabil þar. Ég hef komist í það í seinni tíð að vera aðallega í sóknarhlutverki sem hentar mér best. Áður en ég kom til Fredericia var ég oft fyrir aftan sóknarmenn en ég stökk á tækifærið að fara til Fredericia þegar þeir sögðust vilja nota mig sem hreinræktaðan sóknarmann. Ég lagði alltaf upp töluvert af mörkum og skoraði líka slatta en þeim hefur farið fjölgandi eftir að ég var færður framar á völlinn og ég hef bætt mig mikið.
Hefurðu sett sjálfum þér einhver markmið í markaskorun í sumar?
Ég hugsa ekki svo mikið um það. Markmiðið verður að spila mjög vel og að FH spili vel. Þá veit ég að mörkin láta ekki á sér standa.
Hverjar eru þínar sterku hliðar?
Ég hef ágætt auga fyrir samleik og er sæmilegur í einnar snertingar bolta. Ég hef verið duglegur að koma mér í færi og svo er ég skotviss.
En eru einhverjar veikar hliðar á Allan Dyring?
Ég hef ekki skorað mjög mörg mörk með skalla. Ég er ágætur í að flikka boltanum áfram með hausnum en gæti skorað fleiri skallamörk.
Einhver hafði á orði að þú værir svolítið "viltur" leikmaður. Er eitthvað til í því?
Ég elska að ganga út á völlinn og ég breytist algerlega þegar þangað er komið. Fólk sem þekkir mig utan vallar segir að ég sé ekki sama manneskjan þegar boltinn fer að rúlla. Það skemmtilegasta sem ég geri er að berjast á vellinum.
Safnar þú þá spjöldum?
Nei. Ég hef að minnsta kosti ekki lent í leikbönnum vegna þess.
Við þökkum Allan fyrir spjallið og hlökkum til að sjá hann í "aksjón".
Þess má geta að Fótbolti.net er með ágætt viðtal við Allan á sínum vef. Einnig er þar nýtt viðtal við Peter Matzen sem kemur til liðs við FH í Portúgal á laugardaginn.
|