Gary og Guðmann

KR hafði betur gegn FH

Kassim DoumbiaFH og KR mættust í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins á Alvogen vellinum í Frostaskjóli. Fyrirfram mátti búast við hörkuleik enda tvö bestu lið landsins að mætast.

Liðin mættust í 1. umferð Pepsi deildarinnar á sama velli þar sem FH vann 3-1.

Byrjunarlið FH í þessum leik var eftirfarandi:
Mark: Róbert Örn Óskarsson. Vörn: Brynjar Á. Guðmundsson, Kassim Doumbia, Pétur Viðarsson, Samuel Tillen. Miðja: Davíð Þór Viðarsson, Bjarni Þór Viðarsson, Atli Guðnason. Sókn: Jérémy Serwy, Steven Lennon, Þórarinn Ingi Valdimarsson.

Á meðal varamanna FH í þessum leik voru þeir Guðmann, Emil, Kristján Flóki, Jón Ragnar, Atli Viðar, Hendrickx og Kristján Finnboga.

Fyrri hálfleikur liðanna bar þess merki að bæði lið ætluðu sér ekkert annað en sigur og tryggja sér þar með farseðilinn í undanúrslit bikarsins. Óskar Örn Hauksson kom KR í 1-0 eftir 15. mínútna leik eftir mistök Kassim í vörn FH. Það liðu hinsvegar ekki nema 90. sekúndur þar til Kassim bætti fyrir mistökin, en þá hamraði hann boltann í netið með skalla eftir hornspyrnu Jeremy Serwy.

Bæði lið sóttu til skiptis eftir mörkin og átti KR meðal annars skot í stöng, en FH átti þó fleiri hættulegri sóknir sem báru þó ekki árangur og staðan því 1-1 í hálfleik.

KR-ingar komust yfir 2-1 eftir tæpan tuttugu mínútna leik í seinni hálfleik með marki frá Gary Martin, en nokkrum sekúndum áður björguðu heimamenn skoti Kassim á marklínu. Undirritaður setur hinsvegar spurningamerki við Róbert Örn markvörð FH í markinu.

FH-ingar voru klárlega betri aðilinn eftir annað mark KR, en án þess þó að ná að skapa sér nein almennileg færi. Atli Viðar Björnsson kom inná í stað Þórarins Inga Valdimarssonar þegar rétt um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Emil Pálsson kom inná í lið FH á 79. mínútu í stað Bjarna Þórs Viðarssonar sem hafði engan veginn fundið sig í leiknum. KR-ingar höfðu pakkað í vörn og ætluðu greinilega að freista þess að halda sínu forskoti.

FH-ingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en lukkudísirnar voru ekki með okkar mönnum og draumurinn um að taka tvöfalt úr sögunni. Lokatölur 2-1 fyrir KR.

Við erum FH og gefumst aldrei upp!

 

 

Leave A Comment